54. þing Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) var haldið þriðjudaginn 27. maí 2025 í samkomusal hjá Knattspyrnufélaginu Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði. 76 fulltrúar frá aðildarfélögum ÍBH voru skráðir á þingið og tóku þátt í þinginu ásamt gestum. 57 fulltrúar tóku þátt í atkvæðagreiðslum þingsins. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði Valdimar Víðisson ávarpaði þingið, ásamt Þórey Eddu Elísdóttur úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Hallberu Eiríksdóttur stjórnarmanni UMFÍ. Kristín Thoroddsen formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar kynnti hugmyndir um íþrótta- og tómstundaklasa í Hamranesi fyrir þingfulltrúum og gestum. Hrafnkell Marinósson var endurkjörinn formaður ÍBH og í stjórn ÍBH 2025 til 2027 voru eftirtaldir kjörnir, Anna Lilja Sigurðardóttir frá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Arnfríður Kristín
Arnardóttir frá Brettafélagi Hafnarfjarðar, Fríða Kristín Jóhannesdóttir frá Sundfélagi Hafnarfjarðar, Hildur Vilhelmsdóttir frá Fimleikafélaginu Björk, Magnús Gunnarsson frá Knattspyrnufélaginu Haukum, Már Sveinbjörnsson frá Golfklúbbnum Keili, Ragnar Hilmarsson frá Siglingafélaginu Hafliða og Viðar Halldórsson frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Aðalbjörg Óladóttir varaformaður fráfarandi stjórnar gaf ekki kost á sér til frekari stjórnarsetu og var henni þakkað fyrir frábært starf undanfarin ár. Kjörnir skoðunarmenn ársreikninga til næstu tveggja ára voru Kristinn Guðlaugsson og Ingimar Haraldsson. Einnig voru veittar heiðursviðurkenningar til einstaklinga sem eru búnir að vera öflugir í íþróttum og að starfa fyrir íþróttahreyfinguna í Hafnarfirði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar bauð þingfulltrúum og gestum til
móttöku á Ásvöllum að þinginu loknu. Samþykktar tilögur og mál sem voru lögð fyrir þingið verða birt í þinggerð þingsins.

