January 19, 2026

Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2025 Þóra Kristín og Leo Anthony

 

Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu þriðjudaginn 30. desember 2025. Þóra Kristín Jónsdóttir körfuknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Leo Anthony Speight taekwondomaður úr Fimleikafélaginu Björk var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði Valdimar Víðisson afhenti þeim viðurkenningar fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

Aðildarfélög ÍBH áttu 507 Íslandsmeistara 2025.

Afrekslið ársins 2025 í Hafnarfirði var meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Ellefu hópar urðu bikarmeistarar, þar af átta í efsta flokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt utanhúss, Íþróttafélagið Fjörður bikarmeistarar í sundi fatlaðra, Knattspyrnufélagið Haukar bikarmeistarar í handknattleik meistaraflokkur kvenna, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi kvennaflokkur og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi karlaflokkur.

Tvö lið urðu deildarmeistarar í efsta flokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar meistaraflokkur karla í handknattleik og meistaraflokkur kvenna hjá Knattspyrnufélaginu Haukum í körfuknattleik.

Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands-, bikar- eða deildarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 400.000 á titil á meistaraflokk.

Viðurkenning fyrir sérstök afrek.

Aníta Ósk Hrafnsdóttir frjálsíþróttakona úr Íþróttafélaginu Firði varð Norðurlandameistari í 1500m hlaupi og 5000m hlaupi kvenna utanhúss í paraflokki.

Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði / Sundfélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í 100 m bringusundi karla í paraflokki.

Ómar Darri Sigurgeirsson handknattleiksmaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun í handknattleik á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar.

Freyr Aronsson handknattleiksmaður Knattspyrnufélaginu Haukum vann gullverðlaun í handknattleik á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar vann þrenn gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Birnir Freyr Hálfdánarson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Sólveig Freyja Hákonardóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun á Norðurlandameistaramóti æskunnar í 400m fjórsundi.

Hólmar Grétarsson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun á Norðurlandameistaramóti í 400m fjórsundi í unglingaflokki og gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Guðbjörg Reynisdóttir bogfimikoma Bogfimifélaginu Hróa Hetti vann bronsverðlaun á EM í berbogaliðakeppni kvenna.

Snorri Dagur Einarsson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar vann tvenn gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Birgitta Ingólfsdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar vann þrenn gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Vala Dís Cicero sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar vann tvenn gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Nadja Djurovic sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar vann þrenn gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Símon Elías Statkevicius sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun í sundi á Smáþjóðaleikunum.

Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á íþróttakarli Hafnarfjarðar og íþróttakonu Hafnarfjarðar.

Nikita Bazev dansari Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Róbert Ísak Jónsson sundmaður Íþróttafélaginu Firði / Sundfélag Hafnarfjarðar, Birnir Freyr Hálfdánarson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar, Leo Anthony Speight taekwondomaður Fimleikafélagið Björk, Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttamaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Jóhannes Berg Andrason handknattleiksmaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur Golfklúbbnum Keili, Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar, Þóra Kristín Jónsdóttir körfuknattleikskona Knattspyrnufélagið Haukar,  Hanna Rún Óladóttir dansari Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Gerda Voitechovskaja badmintonkona Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Birgir Ívarsson borðtennismaður Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Aníta Ósk Hrafnsdóttir frjálsíþrótta- og lyftingakona Íþróttafélaginu Firði, Lúkas Ari Ragnarsson fimleikamaður Fimleikafélagið Björk, Arnór Logi Uzureau skotíþróttamaður Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Anna Kamilla Hlynsdóttir snjóbrettakona Brettafélagi Hafnarfjarðar, Arna Eiríksdóttir knattspyrnukona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Sigurður Bjartur Hallsson knattspyrnumaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar og Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2025 er Þóra Kristín Jónsdóttir körfuknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum

Þóra Kristín átti frábært ár þar sem hún var einn af bestu leikmönnum landsins í körfuknattleik. Hún leiddi lið meistaraflokks kvenna hjá Haukum til deildarmeistara- og Íslandsmeistaratitla og var lykilleikmaður  í íslenska landsliðinu, þar sem hún var fyrirliði ásamt Söru Rún Hinriksdóttur. Á árinu var Þóra valin leikmaður ársins í úrvalsdeild kvenna sem og besti leikmaður úrslitakeppninnar. Það gerist ekki oft að sami leikmaðurinn er valin besti leikmaður tímabilsins og svo leikmaður úrslitakeppninnar. Sannarlega magnað ár að baki hjá þessari flottu íþróttakonu. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar henni til hamingju.

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2025 er Leo Anthony Speight taekwondomaður Fimleikafélaginu Björk

Leo Anthony hefur um árabil verið okkar öflugasti taekwondo bardagamaður og verið kosinn Taekwondomaður Íslands 5 sinnum. Árið 2025 var eitt það besta hjá honum þar sem hann hélt áfram góðu gengi frá síðasta ári. Hann var fastamaður í Íslenska landsliðinu í bardaga og komst á pall með því á 5 mótum 2025 þangað til að meiðsli gerðu vart við sig á haustmánuðum. Hann var valin til að keppa á HM í Kína 2025 ásamt fjölda annara móta fyrir hönd Íslands. Hann er ríkjandi Íslandsmeistari. Hann hefur verið að keppa á G-mótum, sterkustu alþjóðlegu mótunum, og  keppti hann fyrstur Íslendinga á Grand Prix móti, sem eru einungis fyrir bestu taekwondo keppendur í heiminum. Hann hefur unnið flest  G-verðlaun íslenskra keppenda frá upphafi. Leo vann meðal annars silfur á Polish Open sem er eitt sterkasta G-1 mótið. Leo var einnig valinn í hóp Íslendinga sem fá styrk frá Ólympíusamhjálpinni fram að Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028 og er í Ólympíuhóp ÍSÍ. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar honum til hamingju.

Afrekslið ársins í Hafnarfirði 2025 er meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu náði frábærum árangri á liðnu ári. Liðið komst í fyrsta skipti í sögu félagsins í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir Breiðablik 3-2 eftir æsispennandi framlengdan leik. Á Íslandsmótinu lék liðið 23 leiki með 15 sigrum, 3 jafnteflum og 5 töpum. Þessi árangur liðsins skilaði þeim 2. sætinu í efstu deild kvenna og tryggði þeim jafnframt sæti í Evrópukeppni á næsta ári.
Lið FH var eitt af yngstu liðum Bestu deildar kvenna árið 2025 en stefna félagsins er að vera vettvangur fyrir þróun ungra uppaldra leikmanna og var liðið í sumar einkennandi fyrir það þar sem ungir efnilegir leikmenn skipuðu stóran part af liðinu í bland við þá eldri og reynslumeiri.
Ljóst er að árangur liðsins í sumar hefur sýnt að meistaraflokkur kvenna hjá FH er orðið eitt af bestu liðum landsins í íslenskri kvennaknattspyrnu. Spilamennska liðsins vakti athygli fyrir mikla ákefð og skemmtilegan sóknarleik. Einstaka leikmenn liðsins vöktu einnig athygli og var leikmaður FH, Thelma Karen Pálmadóttir, valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins auk þess sem að 3 leikmenn (Thelma Karen, Elísa Sigurjónsdóttir og Arna Eiríksdóttir), þar af tveir uppaldir, voru seldir út í atvinnumennsku á árinu, en það er í fyrsta skipti sem félagið nær að selja leikmenn kvennaliðsins erlendis.

Sérstök viðurkenning

Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar hefur ákveðið að heiðra ákveðin aðila innan íþróttahreyfingarinnar fyrir frumkvöðlastarf og einstakan árangur. Að þessu sinni er um að ræða íþróttamanninn Aron Pálmarsson.

Handknattleiksmaðurinn Aron Pálmarsson lagði handboltaskóna á hilluna eftir lok síðasta tímabils. Óhætt er að segja að Aron sé einn allra sigursælasti íþróttamaður sem Hafnarfjörður og Ísland hefur alið af sér. Á ferlinum vann Aron hvorki meira né minna en 34 stóra titla og þar af 32 á erlendri grundu. Aron varð m.a. landsmeistari samtals 13 sinnum (í fjórum löndum), vann Meistaradeild Evrópu í þrígang og varð heimsmeistari félagsliða í þrígang. Þá tók Aron 10 sinnum þátt í úrslitahelgi meistaradeildar Evrópu, oftar en nokkur annar handknattleiksmaður í sögunni. Aron vann bronsverðlaun með íslenska landsliðinu á EM árið 2010 og lék 182 landsleiki fyrir Íslands hönd. Aron hóf ungur handknattleiksiðkun með FH og lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk félagsins aðeins 15 ára gamall. Árið 2009, þegar Aron var 19 ára gamall, gekk hann til liðs við þýska stórliðið THW Kiel og lék með því í sex ár eða til ársins 2015 þegar hann færði sig yfir til Veszprém í Ungverjalandi. Þaðan lá leiðin til spænska stórveldisins Barcelona í fjögur ár og svo Álaborgar í Danmörku í tvö ár áður en hann koma aftur heim í FH sumarið 2023. Með FH varð Aron bæði deildar- og Íslandsmeistari árið 2024 og var bæði valinn mikilvægasti leikmaður tímabilsins og besti leikmaður úrslitakeppninnar. Haustið 2024 samdi Aron óvænt aftur við Veszprém í Ungverjalandi og lék með liðinu sitt síðasta keppnistímabil og endaði ferilinn sem ungverskur meistari. Afrekaskrá Arons er engri lík eins og hér má sjá: 3x Meistaradeild Evrópu (2010, 2012, 2021), 3x Heimsmeistari félagsliða (2011, 2018, 2019), 5x Þýskalandsmeistari (2010, 2012, 2013, 2014, 2015), 3x Þýskur bikarmeistari (2011, 2012, 2013), 3x Ungverjalandsmeistari (2016, 2017, 2025), 2x Ungverskur bikarmeistari (2016, 2017), 4x Spánarmeistari (2018, 2019, 2020, 2021), 4x Spænskur bikarmeistari (2018, 2019, 2020, 2021), 4x Spænskur deildarbikarmeistari (2018, 2019, 2020, 2021), 1x Danskur bikarmeistari (2022), 1x Íslandsmeistari (2024), 1x Íslenskur deildarmeistari (2024) = 34.

Annað: 10x Þátttakandi í Final 4 Meistaradeild Evrópu (oftast allra) 2x MVP (besti leikmaður). Meistaradeild Evrópu (2014, 2016). Bronsverðlaun á EM með Íslandi (2010). Lið ársins á Ólympíuleikum (2012). Íþróttamaður ársins (2012). Íþróttamaður FH (2024). Gullmerki FH (2010). Handknattleiksmaður ársins á Íslandi (4x), 182 landsleikir, 692 mörk. Ýmis önnur einstaklingsverðlaun hér á landi og erlendis.

Myndir: Hafnarfjarðarbær.