June 5, 2025

Ný reiðhöll vígð hjá Hestamannafélaginu Sörla

Miðvikudaginn 4. júní 2025 var vígð ný reiðhöll hjá Hestamannafélaginu Sörla við hátíðlega athöfn. Atli Már Ingólfsson formaður Sörla stýrði athöfninni. Ungir Sörlaknapar voru með skemmtilega sýningu við góðar undirtektir áhorfenda. Verktakafyrirtækið Eykt byggði húsið og afhenti bæjarstjóranum í Hafnarfirði Valdimar Víðissyni húsið sem flutti stutt ávarp í tilefni þessi og afhenti húsið áfram til Hestamannafélagsins Sörla og var það Atli Már formaður félagsins sem tók við því fyrir hönd félagsins. Halldóra Einarsdóttir fékk viðurkenningu sem heiðursfélagi Hestamannafélagsins Sörla. Stefán Már Gunnlaugsson prestur og Sörlafélagi blessaði húsið. Að því loknu var boðið til kaffiveitinga í félagsaðstöðu Sörla. Reiðvöllurinn er 71 x 35 metrar og tekur 800 áhorfendur í sæti. Um er að ræða eina glæsilegustu aðstöðu fyrir hestafólk á landinu. Hestamannafélagið Sörli er rúmlega 80 ára gamalt og með rúmlega 1000 félagsmenn. Íþróttabandalagið í Hafnarfirði óskar Hafnarfjarðarbæ og félaginu til hamingju með glæsilegt íþróttamannvirki.