51. þing ÍBH Jón Gestur sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ

 

Þing Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) var haldið laugardaginn 11. maí 2019 í Hásölum í Hafnarfirði. Þinghaldið hófst klukkan níu og lauk um þrjú leytið. Að loknu þingi var þingfulltrúum og gestum boðið í móttöku á vegum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í Hafnarborg. 68 þingfulltrúar frá 16 félögum mættu til þingsins. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH setti þingið að því loknu bar hann upp tillögu um að Lúðvík Geirsson yrði fyrsti þingforseti og að Kristbjörn Óli Guðmundsson yrði annar þingforseti sem var samþykkt. Lúðvík tók við stjórn þingsins og lagði til að Hlín Ástþórsdóttir yrði þingritari og Valgerður Sigurðardóttir til vara og var það samþykkt. Tillaga var um þriggja manna kjörbréfanefnd sem var samþykkt og tók hún strax til starfa. Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍBH fór yfir skýrslu stjórnar árin 2017 og 2018. Ragnar Hilmarsson gjaldkeri ÍBH lagði fram reikninga ÍBH og Afreksmannsjóðs ÍBH 2017 og 2018 og útskýrði þá fyrir fundarmönnum. Undir liðnum ávörp gesta tók Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar til máls, þakkaði hann öllum viðstöddum fyrir mikið sjálfboðaliðastarf sem unnið er úti í félögunum alla daga og án þess væru félögin ekki eins öflug og raun ber vitni, lagði hann m.a. áherslu á að halda áfram að hvetja til íþróttastarfs, síðan í framhaldi af því fór hann yfir mikið og gott samstarf Hafnarfjarðarbæjar við íþróttahreyfinguna í bænum. Næstur á mælendaskrá var Hafsteinn Pálsson formaður Heiðursráðs ÍSÍ og framkvæmdastjórnarmaður ÍSÍ, flutti hann kveðju Lárusar Blöndal forseta ÍSÍ og Líneyjar Rutar Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ, óskaði hann ÍBH til hamingju með gott starf og vera til fyrirmyndar á landsvísu, hvatti hann fundarmenn til að standa vörð um Íslenska getspá og getraunir sem eru m.a. í samkeppni við ólöglega starfsemi. Ennfremur hvatti hann félögin til að kynna sér tekjumöguleika í gegnum getraunir. Starfið hjá ÍSÍ er alltaf að aukast og fór hann yfir þau verkefni sem eru framundan bæði erlendis og á almenningsíþróttasviði, að lokum var Hafsteini falið að sæma Jón Gest Viggósson æðsta heiðursmerki ÍSÍ sem er heiðurskross ÍSÍ. Jón Gestur hefur verið virkur í íþróttastarfinu í Hafnarfirði um áratuga skeið, hann lék 257 leiki með meistaraflokki FH í handknattleik, sat í stjórn ÍBH frá 1995 – 2009 og hefur gegnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna í Hafnarfirði og sat mörg ár í framkvæmdastjórn ÍSÍ.

 

 

Að lokum tók Fjóla Signý Hannesdóttir varaformaður Frjálsíþróttasambands Íslands til máls og bar þinginu kveðjur frá Frjálsíþróttasambandi Íslands, fór hún í stuttu máli yfir gífurlega öflugt starf hjá frjálsíþróttadeild FH og að stjórn FRÍ hefði ákveðið að heiðra fimm einstaklinga úr röðum FH-inga á þinginu, þessir einstaklingar voru Friðleifur Friðleifsson fyrir störf í langhlaupanefnd FRÍ og fyrir þjálfun hjá hlaupahóp FH, Bjarki Valur Bjarnason fyrir stjórnarstörf frjálsíþróttadeildar FH, foreldrastarf, dómgæslu o.m.fl., Hörður Jóhann Halldórsson fyrir formennsku í hlaupahóp FH og fyrir framkvæmd hlaupamótaraðar (Bose hlauparöðin sem var valin besta hlauparöðin á hlaup.is), hlutu þeir allir Eirmerki FRÍ, Pétur S. Sigurgeirsson fyrir þjálfun hjá hlaupahóp FH, foreldrastarf, dómgæslu o.m.fl., hlaut hann silfurmerki FRÍ og að síðustu Helgi Freyr Kristinsson fyrir áratuga stjórnarstörf, dómgæslu o.m.fl. gullmerki FRÍ. Þrjár fastanefndir voru starfandi á þinginu, fjárhagsnefnd, allsherjarnefnd og íþróttanefnd og fengu þær átta tillögur til umfjöllunar. Tillaga um framkvæmdaröð nýrra verkefna í uppbyggingu íþróttamannvirkja 2019-2028 fékk mesta athygli þingsins. Hrafnkell Marinósson var endurkjörinn formaður ÍBH til næstu tveggja ára. Kosið var í stjórn ÍBH til næstu tveggja ára átta aðalmenn og tvo til vara.

Að lokum fengu tuttuguogeinn einstaklingar heiðursviðurkenningar frá ÍBH, Bogi Eggertsson fyrir margra ára starf sem þjálfari yngri og eldri iðkenda hjá frjálsíþróttadeild FH, Hermann Þór Haraldsson fyrir margra ára starf sem þjálfari yngri og eldri iðkenda hjá frjálsíþróttadeild FH, FelixWoelflin fyrir margra ára starf sem þjálfari yngri og eldri iðkenda hjá frjálsíþróttadeild FH og kennari á vegum EAA, Hörður Jóhann Halldórsson fyrir margra ára starf hjá hlaupahóp FH og fyrir framkvæmd almenningshlauparaðar, Friðleifur Friðleifsson fyrir margra ára starf sem þjálfari hjá hlaupahóp FH og fyrir formennsku í langhlaupanefnd FRÍ, Guðmundur Heiðar Guðmundsson fyrir margra ára íþróttaiðkun með góðum árangri og stjórnarstörf fyrir FH og FRÍ, Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH fyrir íþróttaiðkun til margra ára og þátttöku og verðlaun á stórmóti í frjálsíþróttum í ungmennaflokki, Hilmar Örn Jónsson FH fyrir íþróttaiðkun til margra ára, þátttöku á stórmótum í frjálsíþróttum og að vera Íslandsmethafi í sleggjukasti karla, Jón Sigurður Ólafsson FH fyrir íþróttaiðkun til margra ára í öldungaflokki í frjálsíþróttum og verðlaun á stærstu mótunum í öldungaflokki, Kristinn Torfason FH fyrir að vera keppnismaður í frjálsíþróttum og landsliðsmaður í annan áratug á yfir 40 Íslandsmeistaratitla í langstökki og þrístökki karla, María Rún Gunnlaugsdóttir FH fyrir að vera besta sjöþrautar kona landsins í frjálsíþróttum og keppnismanneskja til margra ára, Vígdís Jónsdóttir FH fyrir að vera margfaldur Íslandsmethafi í sleggjukasti kvenna og keppandi á stórmótum í frjálsíþróttum, Örn Davíðsson FH fyrir að vera landsliðsmaður til margra ára í hástökki og köstum og að vera margfaldur Íslandsmeistari í greinunum, hlutu þau öll silfurmerki ÍBH.

Guðmundur Karlsson FH fyrir að vera fyrrverandi Íslandsmethafi í sleggjukasti karla, landsliðsmaður til margra ára í frjálsíþróttum og að vera öflugur framkvæmda- og afreksstjóri FRÍ, Súsanna Helgadóttir FH fyrir að vera landsliðskona til margra ára í frjálsíþróttum og að hafa unnið stjórnar- og mótastörf fyrir FH og FRÍ í mörg ár, Steinn Jóhannsson FH fyrir að vera landsliðsmaður til margra ára í frjálsíþróttum og að hafa unnið stjórnar- og mótastörf fyrir FH og FRÍ í mörg ár, hlutu þau öll gullmerki ÍBH.

 

 

 

 

 

 

Elín Magnúsdóttir Hestamannafélaginu Sörla fyrir að hafa unnið gríðarlega mikið uppbyggingarstarf í barna- og unglingastarfi og að vera ein að stofnendum Æskunnar og hestsins 1992, Stefanía B. Sigurðardóttir Hestamannafélaginu Sörla fyrir stjórnarstörf til margra ára, Páll Ólafsson Hestamannafélaginu Sörla fyrir stjórnarstörf til margra ára og að vera einn af stofnendum íþróttadeildar Sörla 1979, hlutu þau öll silfurmerki ÍBH.

 

 

 

 

 

 

 

Ásmundur Jónsson Íþróttafélaginu Firði fyrir sunddómara- og sjálfboðaliðastörf í áraraðir, Guðlaug Oddný Sigmundsdóttir Íþróttafélaginu Firði fyrir foreldrafélags- og félagsstörf í áraraðir, hlutu þau silfurmerki ÍBH.