Starfsemi

Lögum samkvæmt er hlutverk ÍBH að vera tengiliður milli bæjarstjórnar og íþróttafélaganna í bænum. Íþróttabandalagið er samtök þeirra félaga í bænum sem leggja stund á íþróttir og lætur sig varða þau mál er snerta hagsmuni íþróttahreyfingarinnar í heild og fer með sameiginleg málefni hennar út á við. Í samræmi við þetta hefur ÍBH verið sameiginlegur vettvangur íþróttafélaganna í bænum til að móta stefnu í þeim málum sem brýnust hafa verið fyrir íþróttafélögin á hverjum tíma. Á vettvangi ÍBH hafa þau lagt línurnar gagnvart bæjarfélaginu hvað varðar t.d. aðstöðu og uppbyggingu íþróttamannvirkja; ÍBH hefur verið málsvari íþróttahreyfingarinnar út á við og haft með höndum samskipti við ÍSÍ, skipan fulltrúa á þing sambandsins svo og sérsambanda, auk samskipta við önnur íþróttabandalög. Jafnframt hefur bandalagið alla tíð úthlutað tímum til íþróttafélaganna í bænum í samvinnu við íþróttaráð.