Saga

Ágrip af sögu ÍBH

Stofnun íþróttabandalaga víðs vegar um landið má rekja til 25. gr. Íþróttalaga sem sett voru þann 12. febrúar árið 1940. Íþróttalögum var breytt árið 1998 og eru þau enn í gildi. Upphafið að lagasetningunni má rekja til tillagna íþróttasambandsins árið 1934 um úrbætur í íþróttamálum Reykjavíkur. Fyrir tilstilli Hermanns Jónassonar, glímukóngs og íþróttakappa, sem var menntamálaráðherra árið 1938 var skipuð nefnd þá um vorið, sem skyldi gera tillögur um eflingu íþróttastarfs og líkamsræktar með þjóðinni og taka íþróttamál í landinu jafnframt til gagngerrar athugunar. Með íþróttalögunum komst á sú skipan sem þekkist enn í dag. Tilvist íþróttabandalaga er grundvölluð á fyrrnefndri 25. grein. 25. greinin gerði ráð fyri skiptingu landsins í íþróttahéruð eftir legu og aðstöðu til samvinnu íþróttafélaga sín á milli. Gert var ráð fyrir að allir aðilar um íþróttamál í héraðinu bindust samtökum um hagsmuni sína.

Í Hafnarfirði var starfandi svonefnt íþróttaráð frá 1935 sem skipað var annars vegar bæjarfulltrúunum Kjartani Ólafssyni sem var formaður og Þorleifi Jónssyni, en af hálfu íþróttafélagana í bænum sátu í ráðinu Hermann Guðmundsson, Hallsteinn Hinriksson og Jón Magnússon. Gísli Sigurðsson kom síðan í staðin fyrir Jón Magnússon. Þannig var ráðið skipað til ársins 1938. Þá hurfu úr því þeir Kjartan og Þorleifur og í þeirra stað komu Jón Mathiesen, sem varð formaður og Jóhann Þorsteinsson. Þessi mannaskipan hélst í ráðinu til ársins 1945. Það var formlega lagt niður í nóvember 1945, rúmu hálfu ári eftir að arftaki þess, Íþróttabandalag Hafnarfjarðar, var stofnað. 

Rúmlega fimm ár liðu frá setningu íþróttalaganna þar til Íþróttabandalag Hafnarfjarðar var stofnað. Á fundi íþróttaráðs Hafnarfjarðar þann 11. janúar 1945 bar Gísli Sigurðsson upp eftirfarandi tillögu: 

    

 "Geri það að tillögu minni að Í.R.H. boði formenn íþróttafélaganna í bænum til fundar, til þess að ræða stofnun íþróttabandalags fyrir Hafnarfjörð, enda lýsi stjórn Í.R.H. sig fylgjandi því að slíkt íþróttabandalag verði stofnað."

 

 Tillaga Gísla var samþykkt og næstu vikum varið til undirbúnings. Unnu þeir Jón Mathiesen formaður íþróttaráðs og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi ríkisins einkum að málinu með því að setja saman lagauppkast. Um miðjan apríl er þessu verki lokið og ákveðið að kalla stjórnir íþróttafélaganna til fundar við íþróttaráð til að kynna þeim uppkastið og útskýra lögin. Á fundinum var einróma samþykkt að stofna íþróttabandalag fyrir Hafnarfjörð svo fljótt sem auðið yrði og kosin framkvæmdanefnd í því skyni.

  Stofnfundur ÍBH var haldinn 28. apríl 1945 að tilhlutan Íþróttaráðs Hafnarfjarðar Fimleikafélags Hafnarfjarðar, Knattspyrnufélagsins Hauka og Skíða- og skautafélags Hafnarfjarðar. Þessi þrjú íþróttafélög teljast því stofnendur Íþróttabandalags Hafnarfjarðar. Tvö þeirra hafa eflst og vaxið eins og  kunnugt er, en starfsemi Skíða- og skautafélagsins lagðist niður eftir 1960.

  Á stofnfundinn mættu eftirtaldir fulltrúar félaganna þriggja: Frá FH: Jón Magnússon, Árni Ágústsson, Guðmundur Árnason, Sveinn Magnússon og Gísli Hildibrandsson. Frá Haukum: Guðsveinn Þorbjörnsson, Guðný Guðbergsdóttir, Jón Egilsson, Sævar Magnússon og Karl Auðunsson. Frá Skíða- og skautafélagi Hafnarfjarðar: Þórður Reykdal, Gunnlaugur Guðmundsson, Víglundur Guðmundsson, Ólafur Gíslason og Kristinn Guðjónsson. Frá íþróttaráði sem áheyrnarfulltrúar með umræðurétt: Jóhann Þorsteinsson, Hallsteinn Hinriksson, Hermann Guðmundsson og Gísli Sigurðsson. Auk þess sat fundinn þáverandi forseti ÍSÍ Benedikt G. Waage.

Fyrstu stjórn ÍBH, sem kosin var á stofnfundi bandalagsins 28. apríl, skipuðu þessir:  Jóhann Þorsteinsson, formaður, Hallsteinn Hinriksson, varaformaður, en báðir voru þeir kosnir á stofnfundinum. Auk þess tilnefndu íþróttafélögin hvert sinn mann en þeir voru Guðmundur Árnason frá FH, Hermann Guðmundsson frá Haukum og Gunnlaugur Guðmundsson frá Skíða- og skautafélaginu.

Lögum samkvæmt er hlutverk ÍBH að vera tengiliður milli bæjarstjórnar og íþróttafélaganna í bænum. Íþróttabandalagið er samtök þeirra félaga í bænum sem leggja stund á íþróttir og lætur sig varða þau mál er snerta hagsmuni íþróttahreyfingarinnar í heild og fer með sameiginleg málefni hennar út á við. Í samræmi við þetta hefur ÍBH verið sameiginlegur vettvangur íþróttafélaganna í bænum til að móta stefnu í þeim málum sem brýnust hafa verið fyrir íþróttafélögin á hverjum tíma. Á vettvangi ÍBH hafa þau lagt línurnar gagnvart bæjarfélaginu hvað varðar t.d. aðstöðu og uppbyggingu íþróttamannvirkja; ÍBH hefur verið málsvari íþróttahreyfingarinnar út á við og haft með höndum samskipti við ÍSÍ, skipan fulltrúa á þing sambandsins svo og sérsambanda, auk samskipta við önnur íþróttabandalög. Jafnframt hefur bandalagið alla tíð úthlutað tímum til íþróttafélaganna í bænum í samvinnu við íþróttaráð. 

  Ársþing ÍBH er helsta samkoma bandalagsins, þar sem félögin ráða sameiginlegum málum sínum og móta stefnuna. Fram til 1974 voru ársþing ÍBH haldin árlega en frá þeim tíma annað hvert ár.

Þegar fundargerðarbækur og ársskýrslur Íþróttabandalags Hafnarfjarðar fyrstu árin eru skoðaðar kemur í ljós að stjórn þess hefur unnið ötullega að ýmsum framgangsmálum íþróttahreyfingarinnar stórum sem smáum, þó að árangurinn hafi sjaldnast verið í samræmi við það sem hugur forystumanna stefndi að. Auðsætt er að í fyrstu stjórnir bandalagsins völdust menn sem báru hag íþróttastarfs í Hafnarfirði mjög fyrir brjósti, sannkallaðir hugsjónamenn, sem vildu veg þess sem mestan. Varla er kastað rýrð á nokkurn þó að aðeins séu nefnd nöfn þeirra Gísla Sigurðssonar og Hermanns Guðmundssonar í þessu sambandi, en báðir voru þeir virkir um langa hríð í starfi bandalagsins og störfuðu af mikilli elju og samviskusemi.

Málefnin sem ÍBH vann að fyrstu árin voru margvísleg, bæðis smá og stór. Af þeim sem minniháttar geta talist má nefna kaup á fótboltum, áhöldum til leikfimiiðkana og og fá kennara til knattspyrnukennslu í bæinn, svo að nokkuð sé nefnt. Hin stærri urðu eins konar eilífðarbaráttumál hafnfirskrar íþróttahreyfingar næstu ár og áratugi, sérstaklega bygging íþróttamannvirkja. Sérstakt þróttasvæði í landi Víðistaða var ennfremur stöðugt til umræðu fyrstu ár ÍBH en ekki varð úr þeim framkvæmdum, bygging búningsaðstöðu við knattpsyrnuvöllinn á Hvaleyrarholti, skáli fyrir Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar á Hellisheiði og fleira. Verða nú rakin stuttlega framvinda þessara baráttumála  sem hið unga bandalag vann að fyrsta áratuginn sem það starfaði.

  • Sundlaugin við Herjólfsgötu var tekin í notkun árið 1943 og þótti þá mikið framfaraspor. Fram að þeim tíma hafði verið synt í sjónum á sömu slóðum og sundlaugin var síðan staðsett. Umræður um yfirbyggingu sundlaugarinnar hófust nánast um leið og sundlaugin var tekin í notkun og fór svo að yfirbygging var samþykkt árið 1947 og framkvæmdum lauk síðan 1953. Þetta efldi starfsemi sundfélagsins til muna og hefur starfsemin verið í mjög föstum skorðum síðan og stendur  SH nú á toppnum í íslenskum sundíþróttum.

  • Skíðaskáli Skíða- og skautafélags  Hafnarfjarðar á Hellisheiði fullgerður 1950 en framkvæmdir hófust á stofnári ÍBH árið 1945. Starfsemi skíða og skautafélagsins lagðist síðan af árið 1964 og hefur ekki starfað síðan.

  • Íþróttahúsið við strandgötu var tekið í notkun  þann 8. apríl 1971 eftir að framkvæmdir höfðu staðið yfir í áratug.

  • Uppbygging FH á Kaplakrikasvæðinu hófst eftir að þeim hafði verið úthlutað svæðinu 1967. Aðstaða til knattspyrnuiðkunar var fyrsta verkefnið í þessum framkvæmdum og reis íþróttahúsið ekki fyrr en 1990. Árið 1993 var síðan gengið endanlega frá jöðrum svæðisins, framkvæmdum við grasæfingasvæð lokið, auk þess sem gerð nýs kastsvæðis var lokið. Árið 1994 var þrek- og félagsaðstaða við malarvöll endurbætt, áður en ráðist var í gerð frjálsíþróttavallarins sem síðan var vígður 1998. Einnig var 1998 tekinn í notkun gervigrasvöllur á grasæfingasvæðinu sem einkum er ætlaður til knattspyrnuæfinga.Uppbyggingu á svæðinu er ekki lokið en fyrirhugaðar eru frekari framkvæmdir á næstu árum.

  • Knattspyrnufélaginu Haukar var úthlutað fiskverkunarhúsi við Flatahraun árið 1969 og tóku húsið í notkun árið 1976 eða sjö áru síðar. Starfsemi félagsins hefur verið mjög dreifð um bæinn allan þennan tíma. Árið 1988 fékk Knattspyrnufélagið Haukar úthlutað nýju íþrótta og útivistarsvæði á Ásvöllum. Árið 1991 hófust framkvæmdir við gervigrasvöll og var hann tekinn í notkun sumarið 1992. Nú hillir undir að starfsemin verði flutt á einn stað en framkvæmdir við íþróttahúsið á Ásvöllum hófust árið 1999 og er fyrirhugað að þeim ljúki 2001.

  • Skotfélagi Hafnarfjarðar var úthlutað svæði í Seldal austan Hvaleyrarvatns.Framkvæmdir þar hófust 1968 og var lokið 1971. Síðar eða árið 1988 var félaginu úthlutað lóð fyrir hglabyssuskotfimi ("SKEET") við Óbrynnishóla við Bláfjallaveg ofan Hafnarfjarðar en þó til bráðabyrgða. Félaginu var svo úthlutað svæði í Kapelluhrauni ofan Straumsvíkur og var ný og glæsileg aðstað sem hlaut nafnið Iðavellir tekin í notkun þann 5 janúar árið 1999.

  • Golfklúbburinn Keilir var stofnaður árið 1967. Klúbburinn fékk úthlutað jörðina Hvaleyri undir golfvöll sinn. Uppbygging vallarins hefur verið í örri þróun síðan þá og stendur þar í dag glæsilegasti golfvöllur landsins með fullkominni félagsaðstöðu.

  • Fimleikafélagið Björk var lengi húsnæðisþurfi, en í kjölfar samþykktar sem gerð var á þingi ÍBH árið 1987 um forgangsröðun á  uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði var byggð fimleikagryfja við íþróttahúsið við flatahraun. Gryfjan var tekin í notkun árið 1990.Nú eru Bjarkirnar að ráðast í enn stærra verkefni en fyrirhugað er að byggja á sama stað stærra og betra fimleikahús og kemur það til með að fullnægja húsnæðisþörf Bjarkana um lengri tíma.

  • Þytur fékk úthlutað svæði við suðurhöfnina, þar hefur nú risið húsnæði sem uppfyllir þörf klúbbsins fyrir aðstöðu. Framkvæmdum er ekki lokið en unnið er að innréttingu húsnæðisins ásamt frágangi á lóð.