Hress styrkir unga og efnilega íþróttamenn með líkamsræktarkortum
Fimm ungir og efnilegir íþróttamenn innan aðildarfélaga ÍBH fengu afhent árskort í líkamsrækt. Kristín Pétursdóttir formaður stjórnar Afreksmannasjóðs ÍBH afhenti kortin við athöfn í Ásvallalaug mánudaginn 30. september sl.
Líkamsræktarstöðin Hress og Afreksmannasjóður Íþróttabandalags Hafnarfjarðar eru búin að vera með samning frá árinu 2005 eða í níu ár um að veita upprennandi afreksfólki stuðning í formi árskorta í líkamsrækt. Í ár er þessi stuðningur metinn á kr. 69.990 á einstakling en samtals kr. 349.950.
Íþróttamennirnir sem fá stuðning eru allir unglingalandsliðsfólk eða landsliðsfólk sem er á aldrinum 15 – 20 ára og með framtíðaráætlanir um að stefna á stórmót í framtíðinni eða hafa nú þegar farið á stórmót.
Myndin sýnir styrkþegana í ár en þeir eru frá vinstri, Perla Steingrímsdóttir, Brynjar Björnsson og Harpa Steingrímsdóttir Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Kolbrún Alda Stefánsdóttir og Hjörtur Már Ingvarsson Íþróttafélaginu Firði. Stjórn Afreksmannasjóðs Íþróttabandalags Hafnarfjarðar óskar styrkþegum til hamingju en þakkar í leiðinni rekstraraðilum Hress fyrir glæsilegt framlag og vonar eftir áframhaldandi góðu samstarfi við Hress í framtíðinni.