Anton Sveinn með Ólympíulágmark á HM í sundi
Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar tók þátt á heimsmeistaramótinu í sundi sem fór fram í borginni Gwangju í Kóreu dagana 21. – 27. júlí 2019. Synti hann tvö sund á mótinu með góðum árangri. Í 200m bringusundi synti hann í undanriðli á tímanum 2:10,32 mín. og náði með þeim árangri að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020, í milliriðli synti hann á 2:10,68 mín. og endaði í 16. sæti í greininni. Í 100m bringusundi synti hann á nýju Íslandsmeti 1:00,32 mín., en í sundinu setti hann einnig Íslandsmetið í 50m bringusundi þegar hann synti á millitímanum 27,46 sek., náði hann 20. sæti í sundinu. Afrekssjóður ÍBH styrkti hann til þátttöku í verkefninu að upphæð kr. 70.000. Myndin með fréttinni er af Antoni Sveini.