Guðrún Brá og Anton Sveinn íþróttafólk Hafnarfjarðar 2020
Þriðjudaginn 29. desember 2020 fór fram árleg Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar. Í ár var hún rafræn í beinu streymi á miðlum Hafnarfjarðarbæjar. Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar og Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar.
Aðildarfélög ÍBH áttu 344 Íslandsmeistara 2020.
Fjórir hópar urðu Íslandsmeistarar félagsliða í efsta flokki, Skotíþróttafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar í sveitakeppni í norrænu trappi í karlaflokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar félagsliða í frjálsíþróttum í karlaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar félagsliða í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss og Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar félagsliða í frjálsíþróttum samanlagt karla- og kvennaflokkur innanhúss
Íþróttalið ársins 2020 í Hafnarfirði var meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsíþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.
Ellefu hópar urðu bikarmeistarar, þar af fjórir í efsta flokki, Fimleikafélagið Björk í áhaldafimleikum kvenna frjálsar æfingar, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki innanhúss og Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt innanhúss.
Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands- eða bikarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 300.000 á titil.
Jóhannes Cesar Helgason varð Norðurlandameistari í ungmennaflokki í tækwondo.
Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á íþróttakarli Hafnarfjarðar og íþróttakonu Hafnarfjarðar. Steven Lennon knattspyrnumaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Kári Jónsson körfuknattleiksmaður úr Knattspyrnufélaginu Haukum, Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Axel Bóasson kylfingur úr Golfklúbbnum Keili, Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði / Sundfélagi Hafnarfjarðar, Róbert Ingi Huldarsson badmintonmaður úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, Nicoló Barbizi dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Vikar Karl Sigurjónsson akstursíþróttamaður úr Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Valur Jóhann Vífilsson akstursíþróttamaður úr Kvartmíluklúbbnum, Þóra Kristín Jónsdóttir körfuknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum, Britney Cots handknattleikskona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Þórdís Eva Steinsdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili, Tanya Elísabeth Jóhannsdóttir sundkona úr Íþróttafélaginu Firði, Erla Björg Hafsteinsdóttir badmintonkona úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, Sara Rós Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Sól Kristínardóttir Mixa borðtenniskona úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar og Heiða Karen Fylkisdóttir akstursíþróttakona úr Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar.
Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar 2020. Hann er sundkarl Sundfélags Hafnarfjarðar og sundkarl Sundsambands Íslands 2020. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari á árinu. Hann setti þrjú Íslandsmet sem voru einnig ný Norðurlandamet í 200m og 100m bringusundi. Hann er í 3. sæti í Evrópu í 200m bringusundi og í 3. sæti á heimslistanum. Í 100m bringusundi er hann í 4. sæti í Evrópu og 6. sæti á heimslistanum. Hann er hluti af liði sem keppir í ISL (International Swim League) sem er ný og fyrsta atvinnumótaröðin í sundi í heiminum. Var búinn að vinna sér inn þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í sundi sem átti að fara fram í maí í Búdapest en var frestað til 2021. Er búinn að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar 2020. Hún er kvennkylfingur Keilis 2020 og Golfsambands Íslands og hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins í mörg ár. Á árinu varð hún Íslandsmeistari kvenna í höggleik. Einnig varð hún stigameistari kvenna í golfi, þar sem hún sigraði þrjú mót af fimm. Guðrún Brá er atvinnukylfingur og leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún er með fullan þátttökurétt á árinu og einnig á næsta ári. Vegna Covid 19 voru ekki mörg atvinnumannamót sem hægt var að leika í á árinu. En hún náði að taka þátt í 10 mótum og vann sér inn þátttökurétt á lokamóti á Evrópumótaröðinni á Spáni í lok nóvember. Besti árangur hennar í ár var 39. sæti á móti í Sádi Arabíu í nóvember sl. Guðrún er í 125. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar og í 949. sæti á heimslista atvinnukvenna í golfi.