Sigurbergur og Hrafnhildur íþróttafólk Hafnarfjarðar 2014

Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram í dag í Íþróttahúsinu við Strandgötu að viðstöddu fjölmenni. Veittar voru viðurkenningar til einstaklinga sem urðu Íslandsmeistarar með hafnfirskum íþróttafélögum á árinu 2014. Í ár voru það samtals 376 einstaklingar úr 22 íþróttagreinum frá 13 íþróttafélögum af 17 innan ÍBH. Flestir titlar í grein í félagi unnust í frjálsum íþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, næstflestir titlar unnust í knattspyrnu hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar og í þriðja sæti urðu titlar í sundi hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar. Samtals átti FH 39,9% titlanna, Sundfélag Hafnarfjarðar 19,4%, og Knattspyrnufélagið Haukar 10,4%, önnur íþróttafélög voru með minni hlutdeild.

Sigurbergur Sveinsson handknattleiksmaður úr Haukum var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar og Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var kjörin Íþróttakona Hafnarfjarðar. Efri mynd frá vinstri Klaus Juergen Ohk þjálfara SH staðgengill Hrafnhildar, Benedikt Sveinsson bróðir Sigurbergs og Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjórinn í Hafnarfirði. Neðri myndin sýnir Sigurberg og Harald.

 

Fimm hópar urðu Íslandsmeistarar í efsta flokki í eftirtöldum íþróttagreinum, skylmingum blönduð sveit, skotíþróttum kvenna, skotíþróttum karla, golfi kvenna og golfi karla.

Níu hópar urðu bikarmeistarar, þar af fimm í efsta flokki, í eftirtöldum íþróttagreinum, í sundi fatlaðra, í sundi í karlaflokki, í golfi kvenna (stigameistarar), í handknattleik karla og körfuknattleik kvenna.

Ellefu einstaklingar hlutu sérstakar viðurkenningar fyrir afrek á árinu, Sveinbjörg Zophoníasdóttir FH Norðurlandameistari í frjálsum íþróttum í sjöþraut í flokki 20-22 ára kvenna, Sylvía Rún Hálfdánardóttir körfuknattleikskona Haukum Norðurlandameistari í körfuknattleik í flokki U-16 kvenna, Inga Rún Svansdóttir körfuknattleikskona Haukum Norðurlandameistari í körfuknattleik í flokki U-16 kvenna, Dýrfinna Arnardóttir körfuknattleikskona Haukum Norðurlandameistari í körfuknattleik í flokki U-16 kvenna, Daníel Ingi Smárason Hestamannafélaginu Sörla Norðurlandameistari í 250m skeiði, Gunnar Egill Ágústsson FH Norðurlandameistari í skylmingum í karlaflokki og í liðakeppni karla, Guðjón Ragnar Brynjarsson FH Norðurlandameistari í skylmingum  í liðakeppni karla. Kristinn Pétursson knattspyrnumaður Haukum fyrir bronsverðlaun í flokki U-15 á Ólympíuleikum ungmenna í Kína. Karl Viðar Magnússon knattspyrnumaður Haukum fyrir bronsverðlaun í flokki U-15 á Ólympíuleikum ungmenna í Kína. Gísli Þorgeir Kristjánsson knattspyrnumaður FH fyrir bronsverðlaun í flokki U-15 á Ólympíuleikum ungmenna í Kína. Jónatan Ingi Jónsson knattspyrnumaður FH fyrir bronsverðlaun í flokki U-15 á Ólympíuleikum ungmenna í Kína.

Meistaraflokkur karla í handknattleik hjá Haukum var valinn Íþróttalið Hafnarfjarðar 2014.

Íþróttafélög sem urðu Íslands- og eða bikarmeistarar í efsta flokki á árinu hlutu afhenda viðurkenningarstyrki frá Hafnarfjarðarbæ.

Ólafur Teitur Guðnason framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi afhenti fulltrúum íþróttafélaga styrki vegna íþróttastarfsins 16 ára og yngri samkvæmt samningi milli Rio Tinto Alcan, ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar að upphæð 7,2 milljónum króna sem skiptist milli ellefu íþróttafélaga eftir námskrám og þjálfaramenntun.

Átján afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á Íþróttakonu og Íþróttakarli Hafnarfjarðar, þeir voru eftirtaldir, Eyjólfur Þorsteinsson Sörla hestaíþróttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir SH sund, Kristinn Torfason FH frjálsar íþróttir, Auður Íris Ólafsdóttir Haukar körfuknattleikur, Sigurbergur Sveinsson Haukar handknattleikur, Kolbeinn Hrafnkelsson SH sund, Kolbrún Alda Stefánsdóttir Fjörður sund, Sveinbjörg Zophoníasdóttir FH frjálsar íþróttir, Sigurður Már Atlason DÍH dans, Hjörtur Már Ingvarsson Fjörður sund, Hjördís Rósa Guðmundsdóttir BH tennis, Stefán Geir Stefánsson SÍH skotíþróttir, Sara Rós Jakobsdóttir DÍH dans, Gísli Sveinbergsson Keilir golf, Guðrún Brá Björgvinsdóttir Keilir golf, Gunnar Egill Ágústsson FH skylmingar, Þórdís Ylfa Viðarsdóttir FH skylmingar og Pétur Viðarsson FH knattspyrna.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2014 er Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hrafnhildur er Íslandsmethafi í 50m, 100m og 200m bringusundi í 50m og 25m laug. Hún er Íslandsmeistari í 50m, 100m, 200m bringusundi og 100m, 200m, 400m fjórsundi og landsliðskona í sundi. Á árinu tók hún þátt í Evrópumeistaramótinu í 50m laug sem fór fram í Berlín í Þýskalandi. Á mótinu varð hún fyrst íslenskra kvenna til að synda í úrslitum í 50m bringusundi og endaði í 7. sæti. Í 100m bringusundi varð hún tíunda og í 200m bringusundi tólfta. Á heimsbikarmóti í Doha í Qatar vann hún silfurverðlaun í 200m bringusundi og bronsverðlaun í 50m og 100m bringusundi. Í desember tók hún síðan þátt á heimsmeistaramótinu í sundi í 25m laug í Doha í Qatar og náði inn á topp 22 í þremur greinum.  

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2014 er Sigurbergur Sveinsson handknattleiksmaður úr Knattspyrnufélaginu Haukum. Síðustu ár hefur hann verið burðarás og lykilmaður í liði sem náði frábærum árangri á árinu. Liðið varð bikarmeistari, deildarmeistari og lenti í öðru sæti á Íslandsmótinu. Sigurbergur er uppalinn Haukamaður, lék sem atvinnumaður erlendis um tíma, en snéri aftur til Haukanna og náði glæsilegum árangri með liðinu. Í sumar hélt Sigurbergur utan á ný og leikur nú með Erlangen í efstu deild í Þýskalandi. Sigurbergur er landsliðsmaður í handknattleik og hefur leikið stórt hlutverk í síðustu leikjum íslenska karlalandsliðsins.

 

ÍSÍ bikar

Golfklúbburinn Keilir er handhafi ÍSÍ bikarsins 2014. Forseti ÍSÍ Lárus Blöndal afhenti Arnari Atlasyni formanni Golfklúbbsins Keilis bikarinn í dag á Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar. Bikarinn er veittur árlega því félagi innan ÍBH sem skarar fram úr í uppbyggingu félags- og íþróttastarfs og fyrir góðan árangur. Mikil áhersla hefur verið lögð á aldurinn 4-10 ára undanfarin ár með nýrri kennsluaðferð sem kallast SNAG. Æfingaaðstaða félagsins innanhúss hefur stórbatnað frá árinu 2007 með tilkomu Hraunkots. Í dag státar félagið að fleiri betri yngri kylfingum en áður.

Bæði meistaraflokkur karla og kvenna eru Íslandsmeistarar í sveitakeppni í golfi. Félagið á bæði unglingalandsliðsfólk og landsliðsfólk í karla- og kvennaflokki sem náðu góðum árangri á árinu. Félagið hefur aukið þjónustuna við almenna kylfinga og býður m.a. upp á námskeið fyrir almenning allt árið sem hefur vakið ánægju félagsmanna.