52. þing ÍBH
Fór fram fimmtudaginn 11. nóvember sl. í Hásölum safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Þinginu hafði verið frestað frá því á vormánuðum vegna kórónuveirufaraldursins. Góð mæting var á þingið og tóku 72 fulltrúar þátt í þinginu auk gesta. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH setti þingið í gegnum Teams. Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir gestir stutt ávörp, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Björn Sigurðsson formaður Sundsambands Íslands og Andri Stefánsson starfandi framkvæmdastjóri ÍSÍ. Þingforsetar voru Steinn Jóhannsson og Valdimar Svavarsson, þingritarar voru Aðalsteinn Valdimarsson og Björgvin Valdimarsson. Starfandi voru fjórar fastanefndir á þinginu, fjárhagsnefnd sem fjallaði um og lagði fjárhagsáæltun ÍBH 2021 – 2023 fyrir þingið, íþróttanefnd sem fjallaði um og lagði fyrir þingið siðareglur og hegðunarviðmið ÍBH og hvatti til þess að þær yrðu einnig þýddar á erlend tungumál, laganefnd sem fjallaði um breytingar á lögum ÍBH og lagði þær fyrir þingið. Þingið samþykkti breytingar varðandi stjórnarkjör, sem voru eftirfarandi, hvert félag, sem öðlast hefur full réttindi í bandalaginu hefur heimild til að tilnefna tvo frambjóðendur einn af hvoru kyni í stjórn ÍBH. Hvert aðildarfélag má eingöngu hafa einn stjórnarmann í stjórn. Kjósa skal átta stjórnarmenn og þar af skulu vera að minnsta kosti þrír af hvoru kyni. Einnig voru samþykktar breytingar varðandi kosningar, kosningar mega fara fram með handauppréttingum, nema þess sé krafist að kosningar séu leynilegar. Kosningarnar skulu þá fara fram með skriflegum hætti. Stjórn skal þó ávallt heimilt að láta kosningar fara fram með rafrænum hætti. Ákvæði um val á nefndarmönnum var einnig samþykkt, stjórnin skal leitast við að nefndir innan þeirra vébanda séu af báðum kynjum. Fjórða fastanefndin var allsherjarnefnd, fjallaði hún um eftirtaldar tillögur og lagði fyrir þingið, tillaga um framkvæmdaröð nýrra verkefna í uppbyggingu íþróttamannvirkja 2021 – 2030, tillaga um að ÍBH sæki um aðild að UMFÍ og tillaga um uppbyggingu á aðstöðu frá Siglingafélaginu Hafliða. Hrafnkell Marinósson var endurkjörinn formaður ÍBH. Eftirtaldir einstaklingar voru kosnir í stjórn ÍBH, Viðar Halldórsson Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Magnús Gunnarsson Knattspyrnufélaginu Haukum, Sylvía Ósk Speight Fimleikafélaginu Björk, Anna Lilja Sigurðardóttir Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Már Sveinbjörnsson Golfklúbbnum Keili, Ragnar Hilmarsson Siglingafélaginu Hafliða, Arnfríður Kristín Arnardóttir Brettafélagi Hafnarfjarðar og Aðalbjörg Óladóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar. Varamenn í stjórn eru Sveinn Heiðar Jóhannesson Hestamannafélaginu Sörla og Helga Veronica Foldar Siglingaklúbbnum Þyt.
Undir liðnum heiðranir, veittu þeir Magnús Gunnarsson og Viðar Halldórsson, þeim Friðdóru Friðriksdóttur, Auði Ásbjörnsdóttur og Guðbjörgu Önnu Guðbjörnsdóttur frá Hestamannafélaginu Sörla silfurmerki ÍBH og Sigurjóni Andersen frá Kvartmíluklúbbnum gullmerki ÍBH.
Þrjú aðildarfélög ÍBH áttu stórafmæli á árinu og hlutu þau áletraðann glergrip, blóm og fjárupphæð í afmælisgjöf samkvæmt reglugerð, en þau voru, Knattspyrnufélagið Haukar sem varð 90 ára 12. apríl sl., Fimleikafélagið Björk sem varð 70 ára 1. júlí sl. og Hjólreiðafélagið Bjartur sem varð 10 ára 19. október sl.