Róbert Ísak og Guðrún Brá íþróttafólk Hafnarfjarðar 2021

Árleg Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram þriðjudaginn 28. desember 2021. Hátíðin fór fram í streymi á miðlum Hafnarfjarðarbæjar vegna samkomutakmarkanna. Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar afhenti þeim viðurkenningar fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

Aðildarfélög ÍBH áttu 317 Íslandsmeistara 2021.

Afrekslið ársins 2021 í Hafnarfirði var meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik hjá Knattspyrnfélaginu Haukum.

Tíu hópar urðu bikarmeistarar, þar af sjö í efsta flokki, Fimleikafélagið Björk í áhaldafimleikum kvenna frjálsar æfingar, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt utanhúss, Knattspyrnufélagið Haukar bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi karlasveit og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundknattleik karlar.

Þrjú lið urðu deildarmeistarar, þar af tvö í efsta flokki, Knattspyrnufélagið Haukar meistaraflokkur karla í handknattleik og Badmintonfélag Hafnarfjarðar A-lið meistaraflokkur karla í borðtennis.

Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands-, bikar- eða deidarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 300.000 á titil.

Sara Rós Jakobsdóttir og Nicoló Barbizi Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar urðu Norðurlandameistarar í dansi standard fullorðinna. Margrét Lea Kristinsdóttir Fimleikafélaginu Björk vann til silfurverðlauna í gólfæfingum á Norður-Evrópumóti í áhaldafimleikum. Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði vann silfurverðlaun í 100m flugsundi og bronsverðlaun í 200m fjórsund á Evrópumóti fatlaðra í sundi.

Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á íþróttakarli Hafnarfjarðar og íþróttakonu Hafnarfjarðar.

Guðrún Edda Min Harðardóttir fimleikakona úr Fimleikafélaginu Björk, Margrét Lea Kristinsdóttir fimleikakona úr Fimleikafélaginu Björk, María Rún Gunnlaugsdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur Golfklúbbnum Keili, Emelía Ýr Gunnarsdóttir sundkona Íþróttafélaginu Firði, Una Hrund Örvar badmintonkona Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar, Sara Rós Jakobsdóttir dansari Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Annika Fríðheim Petersen handknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum, Lovísa Björt Henningsdóttir körfuknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum, Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttamaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Magnús Gauti Úlfarssson borðtennismaður Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Daníel Ísak Steinarsson kylfingur Golfklúbbnum Keili, Róbert Ísak Jónsson sundmaður Íþróttafélaginu Firði, Róbert Ingi Huldarsson badmintonmaður Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Anton Sveinn McKee sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar, Nicoló Barbizi dansari Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Arnar Elí Gunnarsson akstursíþróttamaður Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Leo Anthony Speight taekwondomaður Fimleikafélaginu Björk og Tjörvi Þorgeirsson handknattleiksmaður Knattspyrnufélaginu Haukum.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2021 er Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili. Guðrún Brá er ein af fremstu kylfingum landsins og hefur verið það í mörg ár. Hún er kvennkylfingur Golfsambands Íslands og Keilis 2021. Á árinu varð hún Íslandsmeistari kvenna í holukeppni og sigraði á móti B59 á mótaröð þeirra bestu. Guðrún Brá er atvinnukylfingur í golfi og leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún var með fullan þátttökurétt á árinu. Hún tók þátt í sextán mótum á árinu og vann sér inn þátttökurétt á lokamóti á Evrópumótaröðinni á Spáni í nóvember sl. Besti árangur hennar í ár var 12. sæti á Aramaco mótinu á Englandi í júlí sl. og 8. sæti á ATS í Saudi Arabíu í nóvember sl. Guðrún Brá endaði í 75. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar. Hún er í sæti 649 á heimslista atvinnukvenna í golfi. Guðrún Brá heldur fullum rétti á LET mótaröðinni á árinu 2022 sem hefst í febrúar 2022. Hún er fjórða íslenska konan sem náð hefur keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2021 er Róbert Ísak Jónsson úr Íþróttafélaginu Firði. Róbert Ísak sundmaður er íþróttakarl Fjarðar og Íþróttasambands fatlaðra 2021. Hann er fjórfaldur Íslandsmeistari í 25m laug í flokki S14 og þrefaldur Íslandsmeistari í 50m laug. Einnig setti hann fjölda Íslandsmeta á árinu. Hann vann silfurverðlaun í 100m flugsundi og bronsverðlaun í 200m fjórsundi á EM á Madeira. Á Paralympics 2020 í Tókýó, sem fór fram 2021 náði hann 6. sæti í 100m flugsundi og 200m fjórsundi.

 

 

Afrekslið ársins í Hafnarfirði 2021. Er meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik hjá Knattspyrnufélaginu Haukum. Liðið náði að verða í öðru sæti á Íslandsmótinu. Liðið varð bikarmeistari og meistari meistaranna í haust. Einnig vann liðið fyrsta Evrópuleik sem íslenskt kvennalið hefur unnið núna í haust þegar portúgalska liðið Union Sportiva var lagt í forkeppni EuroCup. Haukar höfðu betur í samanlögðum úrslitum tveggja leikja þessa félaga og fóru í riðlakeppni Evrópukeppninnar. Með þessari frammistöðu eru Haukar að fara fyrir íslenskum kvennaliðum í körfuknattleik og er atburðurinn einstakur í íslenskri íþróttasögu.

 

 

 

Íþróttabandalagið í Hafnarfirði óskar hafnfirsku íþróttafólki innilega til hamingju með árangurinn 2021.