Íþróttastyrkir veittir af Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæ
Nýr samningur frá 2022 – 2024 milli Íþróttabandalagsins í Hafnarfirði (ÍBH), Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar og úthlutun styrkja fyrir yngri en 18 ára iðkendur voru kynnt á rafrænni Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar á samfélagsmiðlum Hafnarfjarðar þriðjudaginn 28. desember sl.
Myndirnar eru frá undirritun nýs samnings frá vinstri Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH, Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi og Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.
Óskað var eftir umsóknum frá aðildarfélögum ÍBH fyrir lok nóvembermánaðar sl. 13 félög sóttu um styrki, en 12 félög uppfylltu skilyrði um stuðning samkvæmt samningi og voru framlögin millifærð á félögin 28. desember sl.
Rio Tinto og Hafnarfjarðarbær greiða 10 milljónir á ári hvor aðili inn í samstarfið til stuðnings íþróttum barna og unglinga í Hafnarfirði. Í þessari úthlutun var verið að úthluta seinni úthlutun ársins úr sjóðnum eða 40% vegna þjálfaramenntunar og námskráa, samtals 8 milljónum króna.
Eftirtalin félög fengu stuðning út frá samningi og umsóknum:
Fimleikafélag Hafnarfjarðar kr. 2.202.260.
Knattspyrnufélagið Haukar kr. 1.967.232.
Sundfélag Hafnarfjarðar kr. 1.032.768.
Fimleikafélagið Björk kr. 667.232.
Golfklúbburinn Keilir kr. 628.814.
Badmintonfélag Hafnarfjarðar kr. 437.853.
Hestamannafélagið Sörli kr. 357.062.
Íþróttafélagið Fjörður kr. 283.616.
Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar kr. 268.927.
Tennisfélag Hafnarfjarðar kr. 80.791.
Brettafélag Hafnarfjarðar kr. 58.757.
Bogfimifélagið Hrói Höttur kr. 14.689.
Nýr samningur
Um er að ræða tvo samninga annars vegar þríhliða samning milli ÍBH, Rio Tinto og Hafnarfjarðar og hins vegar tvíhliða samning milli ÍBH og Rio Tinto. Báðir samningar gilda frá 2022 – 2024. Á árinu 2022 greiðir hvor aðili 10 milljónir króna inn í samstarfið og í samningnum er ákvæði um endurskoðun, þ.e. samningsaðilar geta tekið upphæð samningsins til endurskoðunar í september ár hvert fyrir komandi ár, þó ekki til lækkunar, ef aðstæður leyfa. Breytingar eru á jafnréttishvata, hann verður nú jafnréttisviðurkenning sem félög sækja um með fyrri umsókn ársins. Félög eru einnig hvött til þess að taka jafnréttisumræðuna yfir á allt starf félaganna. Taka skal til hliðar af heildarfjárframlaginu eina milljón króna sem rennur til þess félags sem hlýtur jafnréttisviðurkenningu ár hvert. Félög sækja sérstaklega um jafnréttisviðurkenninguna og skal tilnefningum skilað til ÍBH fyrir 30. apríl. Jafnréttisnefnd, sem er skipuð einum fulltrúa frá Rio Tinto, einum fulltrúa frá Hafnarfjarðarbæ, einum fulltrúa frá ÍBH og einum fagaðila metur allar umsóknir. Jafnréttisviðurkenning verður úthlutað með fyrri úthlutun styrkja sem jafnan fer fram í júní. Jafnréttisnefnd er heimilt að skipta upphæðina niður og viðurkenna fleiri en eitt jafnréttisframtak.
Upphæð við setningu Rio Tinto merkis hækkar. Rio Tinto á Íslandi hf styrkir hvert félag um kr. 300 á skilgreindan iðkanda samkvæmt samningi vegna kostnaðar við setningu Rio Tinto merkisins á keppnisbúninga iðkenda. Þríhliða samning má sjá hér. Tvíhliða samning má sjá hér.
Myndin sýnir Bjarna Má Gylfason leiðtoga samfélagsmála og samskipta hjá Rio Tinto á Íslandi. Hann kynnti sérstaklega breytingar á jafnréttishvata yfir í jafnréttisviðurkenningu.