Fulltrúaráðsfundur ÍBH
Fulltrúaráðsfundur ÍBH var haldinn 10. maí sl. í Betri stofunni í Firði. Áhersla fundarins voru markaðsmál í íþróttahreyfingunni. Tuttugu og átta manns frá aðildarfélögum ÍBH og stjórn ÍBH mættu á fundinn og hlýddu á erindi frá Tryggva Frey Elínarsyni frá Datera um markaðssetningu íþróttafélaga á netmiðlum, síðan var Andri Ómarsson frá Hafnarfjarðarbæ með erindi um markaðssetningu íþrótta í sveitarfélaginu og að lokum var Ólafur Árdal frá Sundfélagi Hafnarfjarðar með erindi um markaðssetningu íþróttafélags á netmiðlum. Fulltrúar íþróttafélaga tóku til máls og greindu frá starfinu í sínu félagi, Sveinn Heiðar fulltrúi Hestamannafélagsins Sörla stal senunni með því að upplýsa fundarmenn um að það væru 3300 hross í Hafnarfirði, en ekkert íþróttafélag í Hafnarfirði toppar það í iðkendafjölda. Fundinum lauk með veitingum og óformlegu spjalli, þar sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði Rósa Guðbjartsdóttir og nokkrir bæjarfulltrúar voru mættir. Myndirnar eru af fundinum.