Íþróttafélagið Fjörður 30 ára

Á 30 ára afmælisdegi Fjarðar miðvikudeginum 1. júní sl. hélt félagið afmælis- og uppskeruhátíð í veislusal Ásvalla í Hafnarfirði. Góð mæting var í veisluna sem Þröstur Erlingsson formaður félagsins stýrði. Jóhann Arnarson varaformaður Íþróttasambands fatlaðra færði félaginu gjöf frá sambandinu og veitti einstaklingum úr Firði heiðursmerki. Bæjarstjórinn í Hafnarfirið Rósa Guðbjartsdóttir færði félaginu blóm og peningagjöf frá Hafnarfjarðarbæ, en auk hennar voru nokkrir bæjarfulltrúar mættir sem var mjög ánægjulegt. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH færði félaginu blóm, áletraðann grip og peningagjöf að tilefni afmælisins. Þjálfarar félagsins veittu sínum hópum viðurkenningar fyrir afrek og ástundun. Gissur Guðmundsson fyrrverandi bæjarfulltrúi, lögreglumaður og velunnari Fjarðar tilkynnti val á íþróttakarli og íþróttakonu Fjarðar, þeim Róberti og Anítu og veitti þeim verðlaun. Að lokum var boðið í pylsupartí og afmælisköku.

Íþróttafélagið Fjörður var stofnað 1. júní árið 1992 af nokkrum mæðrum fatlaðra barna í Hafnarfirði. Hugmyndin var að gefa fötluðum börnum á skólaaldri tækifæri til íþróttaiðkunar til jafns við ófatlaða jafnaldra í bænum. Fyrsti formaður félagsins var Hanna G. Kristinsdóttir. Á þeim tíma sem félagið var stofnað voru starfandi nítján íþróttafélög fatlaðra á landinu og var þegar búið að stofna Íþróttasamband fatlaðra. Hjá félaginu hefur verið lögð áhersla á sund, boccia og bauð félagið tímabundið upp á íþróttaskóla fyrir börn. Á haustmánuðum 2021 byrjuðu æfingar í frjálsíþróttum. Í dag eru skráðir félagsmenn 83, en iðkendur 44.  Árangur í keppnum undanfarin ár bæði innanlands og erlendis hefur verið góður. Frá haustinu 2008 hefur félagið æft sund í Ásvallalaug en skrifstofuaðstaða félagsins er einnig þar. Bocciaæfingar hafa farið fram í íþróttahúsi Víðistaðaskóla. Frjálsíþróttaæfingar hafa farið fram í Kaplakrika. Félagið hefur í tvígang átt íþróttakarl Hafnarfjarðar sundmanninn Róbert Ísak Jónsson árin 2017 og 2021. Valgerður Hróðmarsdóttir, nú yfirþjálfari í boccia hefur starfað fyrir félagið frá stofnun þess og er vel við hæfi á þessum tímamótum að færa henni sérstakar þakkir fyrir. Félagið hefur verið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og endurnýjaði nafnbótina síðast vorið 2012, en endurnýja þarf nafnbótina á fjögurra ára fresti. Núverandi formaður félagsins er Þröstur Erlingsson og vill ÍBH þakka honum fyrir gott samstarf og liðlegheit í gegnum árin. ÍBH óskar félaginu til hamingju með afmælið og velfarnaðar í starfi á komandi árum.

Myndirnar eru frá afmælisveislunni 1. júní 2022