49. þing ÍBH og 70 ára afmæli bandalagsins
49. þing Íþróttabandalags Hafnarfjarðar var haldið laugardaginn 25. apríl sl í félagssal Sundfélags Hafnarfjarðar í Ásvallalaug. Þingið var sett kl. 10.00 af formanni ÍBH Hrafnkeli Marinóssyni og voru 61 fulltrúar aðildarfélaga ÍBH mættir á þingið og tóku þátt í þingstörfum. Jón A. Marinósson var kosinn fyrsti þingforseti og Guðmundur Haraldsson fyrsti ritari þingsins. Framkvæmdastjóri ÍBH Elísabet Ólafsdóttir fór yfir skýrslu stjórnar og gjaldkeri ÍBH Bergsteinn Hjörleifsson útskýrði reikninga ÍBH og Afreksmannasjóðs ÍBH. Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði var viðstaddur setningu þingsins og ávarpaði það. Haraldur byrjaði á því að þakka þingfulltrúum fyrir þeirra störf í þágu íþróttamála í Hafnarfirði og allt sjálfboðaliða vinnuframlagið sem félögin skila inn í samfélagið í Hafnarfirði. Ennfremur kom hann inn á að Hafnarfjarðarbær stæði um þessar mundir í vinnu við að greina samninga íþróttafélaganna við Hafnarfjarðarbæ og af þeirri vinnu væri greinilegt að Hafnarfjarðarbær kæmi ekki vel út í samanburði við önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sigríður Jónsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ ávarpaði þingið og færði kveðjur frá ÍSÍ. Sigríður ræddi m.a. barna- og unglingastarfið í íþróttahreyfingunni, hvatti félögin til að sækja fræðslu á heimasíðu ÍSÍ bæði bæklinga og myndefni, benti fundargestum á að standa vörð um Íslenska getspá og Getraunir sem eru ein aðaltekjulind íþróttahreyfingarinnar og að vera á varðbergi yfir ólöglegri getraunastarfsemi sem teygir anga sína víða. Að lokum þakkaði Sigríður Jóni Gesti Viggóssyni fyrir samstarfið í framkvæmdastjórn ÍSÍ, en hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa á Íþróttaþingi ÍSÍ sem fór fram helgina 17. og 18. apríl sl. Hörður Oddfríðarson formaður Sundsambands Íslands þakkaði gott boð og lánið á Hrafnkeli formanni ÍBH sem hefur stjórnað undirbúningi á sundhluta Smáþjóðaleikana sem eru framundan í byrjun júní nk að lokum þakkaði Hörður Hafnarfjarðarbæ og íþróttafélögunum fyrir mikla og stórhuga uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum undanfarna áratugi. Mál tengd uppbyggingu íþróttamannvirkja eru ávallt fyrirferðamikil á þingum ÍBH og að þessu sinni var einnig samþykkt að hafa starfandi milliþinganefnd um málaflokkinn fram að næsta þingi. Stjórn ÍBH stefnir að því að starfa nánar með aðildarfélögunum sínum að fræðslu- og afreksmálum og voru m.a. mál því tengd einnig samþykkt á þinginu. Frá síðasta þingi hefur eitt nýtt aðildarfélag tekið til starfa Lyftingafélag Hafnarfjarðar sem var stofnað 9. júlí 2014. Hrafnkell Marinósson var endurkjörinn formaður ÍBH til næstu tveggja ára. Þingstörfum lauk um hálf fjögur og móttaka Hafnarfjarðarbæjar og 70 ára afmæli ÍBH hófst í Hásölum safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju kl. 17.00. Um það bil 140 gestir mættu í hófið sem var hið glæsilegasta. Hafnarfjarðarbær færði bandalaginu við þetta tækifæri vandaðan hátíðarfána að gjöf. Viðar Halldórsson formaður Fimleikafélags Hafnarfjarðar færði bandalaginu stöng og undirstöðu undir nýja hátíðarfánann að gjöf. Lárus Blöndal forseti ÍSÍ færði bandalaginu áletraðan silfurplatta að gjöf og árnaðaróskir. Samúel Guðmundsson formaður Hauka færði bandalaginu áletraðan grip að gjöf og hvatti bandalagið til dáða. Blóm, hamingjuóskir og baráttukveðjur bárust frá mörgum fleiri aðilum. Jóhann Guðni Reynisson var með skemmtilegan fyrirlestur um bandalagið og uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði sl 70 ár. Tríó Stebba Ó. sá um tónlistarflutning og Jón Jónsson íþróttamaður/tónlistarmaður tók nokkur lög. Margir einstaklingar voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu íþróttamála í Hafnarfirði samtals voru 51 silfurmerki og 17 gullmerki ÍBH afhent.