Brettafélag Hafnarfjarðar 10 ára

Brettafélag Hafnarfjarðar (BFH) var stofnað 9. júlí 2012 og fagnaði 10 ára afmæli sínu þann 15. október sl. í húsnæði félagsins við Flatahraun að viðstöddu fjölmenni. Jóhann Óskar Borgþórsson formaður félagsins setti hátíðina og bauð alla velkomna. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjórinn í Hafnarfirði færði félaginu gjöf, talaði fallega um starf félagsins og tilkynnti að skipaður yrði starfshópur um framtíðarhúsnæði BFH. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH tók einnig til máls og lét hlý orð falla um starfsemi félagsins og færði félaginu gjöf frá ÍBH. Að því loknu tóku við, heiðranir, veitingar, sýningar bestu skateranna og skemmtiatriði. Brettafélag Hafnarfjarðar er aðili að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar og býður upp á snjóbrettaiðkun sem er undir Skíðasambandi Íslands, hjólreiðaæfingar (BMX, fjallahjól) sem eru undir Hjólreiðasambandi Íslands og hjólabrettaiðkun sem er undir almenningsíþróttum Íþróttir fyrir alla. Árið 2021 voru iðkendur félagsins 259. Myndirnar eru úr afmælinu.