Guðrún Brá og Anton Sveinn íþróttafólk Hafnarfjarðar 2022
Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram þriðjudaginn 27. desember 2022 í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjórinn í Hafnarfirði afhenti þeim viðurkenningar fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.
Aðildarfélög ÍBH áttu 372 Íslandsmeistara 2022.
Afrekslið ársins 2022 í Hafnarfirði var meistaraflokkur kvenna og karla í frjálsíþróttum frá frjálsíþróttadeild FH.
Sextán hópar urðu bikarmeistarar, þar af ellefu í efsta flokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt utanhúss, Íþróttafélagið Fjörður bikarmeistarar í sundi fatlaðra, Badmintonfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í borðtennis blandað lið, Knattspyrnufélagið Haukar bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi kvennasveit og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi karlasveit.
Sjö lið urðu deildarmeistarar, ekkert í efsta flokki, Knattspyrnufélagið Haukar meistaraflokkur karla í körfuknattleik í 1. deild (næst efstu deild), Fimleikafélag Hafnarfjarðar meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu í 1. deild (næst efstu deild), Fimleikafélag Hafnarfjarðar 5. flokkur karla A-lið í knattspyrnu, Fimleikafélag Hafnarfjarðar 4. flokkur kvenna A-lið í knattspyrnu, Fimleikafélag Hafnarfjarðar 4. flokkur karla B-lið í knattspyrnu, Fimleikafélag Hafnarfjarðar 3. flokkur kvenna B-lið í knattspyrnu og Knattspyrnufélagið Haukar 10. flokkur stúlkna í körfuknattleik unnu 2. deild kvenna.
Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands-, bikar- eða deildarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 300.000 á titil.
Viðurkenning fyrir sérstök afrek. Birnir Freyr Hálfdánarson Sundfélagi Hafnarfjarðar vann bronsverðlaun í 200m fjórsundi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, gullverðlaun í 100m flugsundi og 200m fjórsundi á Norðurlandameistaramóti Æskunnar og gullverðlaun í 200m fjórsundi unglinga á Norðurlandameistaramóti. Erlingur Örn Árnason, Steinn Jóhannsson, Birna Jóhanna Ólafsdóttir, Kristín Jóna Skúladóttir og Trausti Sveinbjörnsson Sundfélagi Hafnarfjarðar unnu gullverðlaun í flokki garpa á Norðurlandameistaramóti, Trausti með þrenn gullverðlaun. Aníta Ósk Hrafnsdóttir Íþróttafélaginu Firði vann gullverðlaun í 1500m hlaupi fatlaðra á Norðurlandameistaramóti og vann gullverðlaun í 800m hlaupi og kúluvarpi á Special Olympics. Kolbeinn Höður Gunnarsson Fimleikafélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun í 100m og 200m hlaupum á Smáþjóðameistaramóti. Axel Bóasson Golfklúbbnum Keili vann Rewell Elisefarm Challenge mótið á Nordic league mótaröðinni. Róbert Ísak Jónsson Íþróttafélaginu Firði gullverðlaun á Norðurlandamóti fatlaðra í 200m fjórsundi og 100m bringusundi.
Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á íþróttakarli Hafnarfjarðar og íþróttakonu Hafnarfjarðar.
Tómas Kári Björgvinsson Rist hjólreiðamaður úr Brettafélagi Hafnarfjarðar, Jóhann Ingi Fylkisson akstursíþróttamaður Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Leo Anthony Speight taekwondomaður úr Fimleikafélaginu Björk, Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði, Þorsteinn Bárðarson hjólreiðamaður úr Hjólreiðafélaginu Bjarti, Nicolo Barbizi dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Magnús Gauti Úlfarsson borðtennismaður úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Axel Bóasson kylfingur úr Golfklúbbnum Keili, Guðbjörg Reynisdóttir bogfimikona úr Bogfimifélaginu Hróa Hetti, Telma Rut Hafþórsdóttir akstursíþróttakona Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar, Aníta Ósk Hrafnsdóttir frjálsíþróttakona Íþróttafélaginu Firði, Díana Björk Olsen hjólreiðakona Hjólreiðafélaginu Bjarti, Sara Rós Jakobsdóttir dansari Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Sól Kristínardóttir Mixa borðtenniskona Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur Golfklúbbnum Keili og Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum.
Íþróttakona Hafnarfjarðar 2022 er Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili. Guðrún Brá er atvinnukylfingur í golfi og leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún var með fullan þátttökurétt á árinu. Hún tók þátt í sextán mótum á árinu og besti árangur hennar var 10. sæti á ATS mótinu í Bangkok og bætir sig á heimslista atvinnukvenna í golfi á milli ára.
Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2022 er Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton Sveinn er landsliðsmaður í sundi og þátttakandi á heimsmeistaramóti og Evrópumeistaramóti í 50m laug þar sem hann lenti í 6. sæti í úrslitakeppni í 200m bringusundi á báðum mótum. Einnig var hann þátttakandi á heimsmeistaramóti í 25m laug þar sem hann lenti í 10. sæti í 200m bringusundi og í 18. sæti í 100m bringusundi. Hann æfir og keppir með atvinnumannaliði í sundi. Anton Sveinn var valinn sundkarl Sundsambands Íslands 2022.
Afrekslið ársins í Hafnarfirði 2022.
Karla- og kvennalið frjálsíþróttadeildar FH stóð sig frábærlega á árinu 2022. Liðið sigraði í öllum frjálsíþróttamótum sem keppt var til stiga á árinu fyrir utan eina stigakeppni. Keppt er bæði í karla- og kvennaflokki auk þess sem keppt er samanlagt. Keppnir í frjálsíþróttum eru bæði haldin innanhúss og utanhúss. Þá vann liðið til fjölda titla bæði á Meistaramótum sem og í Bikarkeppni. Einstaklingar í liðinu settu Íslandsmet, tóku þátt í landskeppnum eins og smáþjóðameistaramóti. Liðið er því vel að því komið að vera valið íþróttalið Hafnarfjarðar árið 2022.