Jafnréttishvataverðlaun afhent í fyrsta skipti með íþróttastyrkjum fyrir 16 ára og yngri
Í dag tóku fulltrúar hafnfirskra íþróttafélaga á móti styrkjum frá Rio Tinto Alcan á Íslandi hf og Hafnarfjarðarbæ fyrir 16 ára og yngri iðkendur félaganna við athöfn í Straumsvík. Úthlutað var samtals 10,8 milljónum króna sem samkvæmt ákvæðum samnings skiptast á þau 11 íþróttafélög sem sóttu um stuðning fyrir barna- og unglingastarfið í sínu félagi. Eftirtalin íþróttafélög hlutu styrk: Knattspyrnufélagið Haukar samtals kr. 2.592.385, Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) samtals kr. 2.492.224, Fimleikafélagið Björk samtals kr. 2.305.651, Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) samtals kr. 795.391, Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH) samtals kr. 369.218, Golfklúbburinn Keilir samtals kr. 361.363, Hestamannafélagið Sörli samtals kr. 288.697, Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar (DÍH) samtals kr. 278.878, Siglingaklúbburinn Þytur samtals kr. 182.645, Íþróttafélagið Fjörður samtals kr. 74.629 og Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar samtals kr. 58.918. Jafnréttishvataverðlaun hlutu Knattspyrnufélagið Haukar fyrir mestu fjölgun iðkenda þess kyns sem hallaði á kr. 500.000 og Íþróttafélagið Fjörður fyrir mestu prósentufjölgun þess kyns sem hallaði á kr. 500.000. Myndin sýnir forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi Rannveigu Rist, bæjarstjórann í Hafnarfirði Harald Líndal Haraldsson ásamt fulltrúum íþróttafélaganna sem hlutu styrk.
Frá árinu 2001 hefur verið í gildi samningur milli Rio Tinto Alcan, ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar um stuðning við íþróttastarf 16 ára og yngri iðkenda aðildarfélaga ÍBH. Frá árinu 2014 varð heildarstyrktarupphæðin 18 milljónir á ári, framlag hvors aðila er 9 milljónir króna á ári. Sífeld endurskoðun og þróun á sér stað á barna- og unglingastarfi íþróttafélaganna. Gerð er krafa um vellíðan allra sem koma að íþróttastarfinu. Vanda þarf vel til við val á þjálfurum því í dag þurfa þeir að sinna uppeldis-, forvarnar- og íþróttastarfi sem getur oft á tíðum verið ansi vandasamt. Oft reynist erfitt að finna fólk með bæði faglega þekkingu á íþróttum og góða mannlega eiginleika svo almenn ánægja verði með starfið og að það skili árangri. Íþróttastarfið á að byggja á heilbrigðum gildum úr samfélaginu, móta einstaklingana sem taka þátt fyrir lífstíð og leggja grunninn að heilbrigðum lífsstíl. Rannsóknir hafa margsýnt fram á að skipulagt íþróttastarf skili verðmætari einstaklingum út í samfélagið. Gæðamikið íþróttastarf getur ekki farið fram án stuðnings einkaaðila og opinberra aðila. Samvinna Rio Tinto Alcan á Íslandi og Hafnarfjarðarbæjar um fjárstuðning við barna- og unglingastarf hafnfirskra íþróttafélaga er bæði mikilvægt og verðmætt. Íþróttahreyfingin í Hafnarfirði þakkar Hafnarfjarðarbæ og Rio Tinto Alcan á Íslandi hf fyrir stuðninginn og farsælt samstarf í gegnum árin.