Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2023 Anton Sveinn og Elín Klara

Hin árlega Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram miðvikudaginn 27. desember 2023 í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Móðir Antons Sveins, Helga Margrét Sveinsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar afhenti þeim viðurkenningar fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

Aðildarfélög ÍBH áttu 384 Íslandsmeistara 2023.

Afrekslið ársins 2023 í Hafnarfirði var meistaraflokkur kvenna og karla í frjálsíþróttum frá frjálsíþróttadeild FH.

Tuttugu hópar urðu bikarmeistarar, þar af ellefu í efsta flokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt utanhúss, Íþróttafélagið Fjörður bikarmeistarar í sundi fatlaðra, Badmintonfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í borðtennis blandað lið, Knattspyrnufélagið Haukar bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi kvennasveit og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi karlasveit.

Tvö lið urðu deildarmeistarar, eitt í efsta flokki, Badmintonfélag Hafnarfjarðar meistaraflokkur karla í borðtennis og hitt liðið var 3. flokkur karla í handknattleik hjá Knattspyrnufélaginu Haukum.

Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands-, bikar- eða deildarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 400.000 á titil á meistaraflokk.

Viðurkenning fyrir sérstök afrek. Guðmundur Bragi Ástþórsson, Kristófer Máni Jónasson, Andri Már Rúnarsson handknattleiksmenn úr Knattspyrnufélaginu Haukum, Einar Bragi Aðalsteinsson, Jóhannes Berg Andrason, Símon Michael Guðjónsson handknattleiksmenn úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar urðu bronsverðlaunahafar á HM U21 í handknattleik auk þjálfarans Einars Andra Einarssonar þjálfara hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í þrístökki karla utanhúss. Sindri Hrafn Guðmundsson frjálsíþróttamaður Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í spjótkasti karla utanhúss. Birta María Haraldsdóttir frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í hástökki U20 kvenna utanhúss. Hera Christensen frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í kringlukasti U20 kvenna utanhúss. Ísold Sævarsdóttir frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í sjöþraut U18 kvenna utanhúss. Markús Marelsson kylfingur Golfklúbbnum Keili sigraði á Lubker junior mótinu og á Dresden junior mótinu. Axel Bóasson kylfingur Golfklúbbnum Keili sigraði á Big Green Swedish matchplay mótinu á Nordic league mótaröðinni. Vala Dís Cicero sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Smáþjóðaleikunum í boðsundi 4 x 100m skriðsundi og 4 x 200m skriðsundi. Varð Norðurlandameistari unglinga í 200m skriðsundi. Anton Sveinn McKee sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Smáþjóðaleikunum í 100m bringusundi, 200m bringusundi og 400m fjórsundi, vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti í 25m laug í 200m bringusundi. Birnir Freyr Hálfdánarson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Smáþjóðaleikunum í 200m fjórsundi. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Smáþjóðaleikunum í boðsundi 4 x 100m skriðsundi og 4 x 200m skriðsundi. Kristín Helga Hákonardóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Smáþjóðaleikunum í boðsundi 4 x 100m skriðsundi og 4 x 200m skriðsundi. Steinn Jóhannsson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Norðurlandsmeistaramóti garpa í 400m fjórsundi flokkur 55-59 ára. Trausti Sveinbjörnsson sundmaður Sundfélag Hafnarfjarðar sigraði á Norðurlandameistaramóti garpa í 50m skriðsundi og 50m bringusundi flokkur 75-79 ára. Þórhallur Jóhannesson sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar sigraði á Norðurlandameistaramóti garpa í 50m bringusundi flokkur 70-74 ára. Róbert Ísak Jónsson sundmaður Íþróttafélaginu Firði / Sundfélag Hafnarfjarðar sigraði á Norðurlandameistaramóti í paraflokki (fatlaðir) í 200m fjórsundi. Emil Steinar Björnsson frjálsíþróttamaður Íþróttafélaginu Firði sigraði á Norðurlandameistaramóti í paraflokki í spjótkasti og kringlukasti.   

Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á íþróttakarli Hafnarfjarðar og íþróttakonu Hafnarfjarðar.

Guðmundur Bragi Ástþórsson handknattleiksmaður Knattspyrnufélaginu Haukum, Axel Bóasson kylfingur Golfklúbbnum Keili, Gabríel Ingi Helgason badmintonmaður Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Magnús Gauti Úlfarsson borðtennismaður Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Nicolo Barbizi dansari Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Hilmar Smári Henningsson körfuknattleiksmaður Knattspyrnufélaginu Haukum, Róbert Ísak Jónsson sundmaður Íþróttafélaginu Firði / Sundfélag Hafnarfjarðar, Anton Sveinn McKee sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar, Leo Anthony Speight taekwondomaður Fimleikafélagið Björk, Kolbeinn Höður Gunnarsson frjálsíþróttamaður Fimleikafélag Hafnarfjarðar, Eowyn Marie Mamalias bogfimikona Bogfimifélaginu Hróa Hetti, Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir taekwondokona Fimleikafélagið Björk, Margrét Lea Kristinsdóttir fimleikakona Fimleikafélagið Björk, Vildís Edwinsdóttir snjóbrettakona Brettafélag Hafnarfjarðar, Vala Dís Cicero sundkona Sundfélag Hafnarfjarðar, Eva Margrét Kristjánsdóttir körfuknattleikskona Knattspyrnufélagið Haukar, Sara Rós Jakobsdóttir dansari Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Gerda Voitechovskaja badmintonkona Badmintonfélagi Hafnarfjarðar og Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2023 er Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum. Leikstjórnandi kvennaliðs Hauka í Olísdeildinni, var valin besti og efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna á lokahófi HSÍ í maí 2023 síðastliðnum, þá aðeins 18 ára gömul. Einnig var Elín valin besti leikmaður kvennaliðs Hauka á lokahófi handknattleiksdeildarinnar. Þá var hún Íslandsmeistari með 3. flokki kvenna. Elín Klara var valin í A-landslið Íslands sem tók þátt í HM í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. 

 

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2023 er Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton er landsliðsmaður. Árið 2023 vann hann þrjá Íslandsmeistaratitla yfir 50, 100 og 200 metra bringu. Á heimsmeistaramótinu í Fukuoka, í Japan, um sumarið, náði hann að komast áfram í úrslit í 200m bringusund á tímanum 2.09,50. Þessi tími er hraðari en A-lágmark fyrir Ólympíuleikana á næsta ári í París og tryggir þátttöku hans þar. Hann lenti í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu í Rúmeníu í 200 metra bringusundi nú fyrr í desember. Anton æfir með atvinnumanna liðinu Virginia Tech University í Bandaríkjunum. Hann keppir og æfir með SH í öllum sínum fríum og heimsóknum til Íslands.

 

 

 

 

 

 

 

 

Afrekslið ársins í Hafnarfirði 2023 er karla- og kvennalið frjálsíþróttadeildar FH stóð sig frábærlega á árinu 2023. Liðið sigraði í öllum frjálsíþróttamótum þar sem keppt var til stiga á árinu, hlaut samtals 12 titla en hafði mest áður unnið 11 titla árið 2022. Þá unnust fjölmargir sigrar í einstaklingskeppni Meistaramóta Íslands og í Bikarkeppnum FRÍ. Í fullorðinsflokkum settu FH-ingar sex Íslandsmet á árinu og jöfnuðu eitt í tvígang. Auk þess gerðu FH-ingar víðreist á árinu og kepptu á fjölda móta erlendis með góðum árangri, unnu m.a. tvo Norðurlandameistaratitla í fullorðinsflokki einstaklinga. Árangur frjálsíþróttadeildar FH er einstakur árið 2023 og liðið vel að því komið að vera lið Hafnarfjarðar árið 2023.

Sérstök viðurkenning

Núna í ár, í fyrsta sinn, ákvað íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar að heiðra ákveðin aðila innan íþróttahreyfingarinnar fyrir frumkvöðlastarf og einstakan árangur. Um er að ræða íþróttamann sem nýverið lagði skóna á hilluna. Þessi íþróttamaður hefur verið fyrirmynd annarra og náð einstökum árangri á löngum keppnisferli sínum. Fyrsti íþróttamaðurinn til að fá þessa viðurkenningu er Helena Sverrisdóttir. Helena hóf ung að árum að stunda körfuknattleik í Haukum og fljótlega fór hún að sýna að þar væri afar mikið efni á ferð. Meistaraflokkur kvenna í Haukum var endurreistur um aldamótin og fljótt lét Helena að sér kveða sem einn allra besti leikmaður liðsins þó hún væri aðeins 13 ára gömul. Haukar fór upp um deild fljótlega og tímabilið 2002-2003 léku Haukar og Helena í efstu deild. Helena var einn allra besti leikmaður deildarinnar og á því tímabili var hún fyrst valin í A-landsliðið 14 ára gömul. Á næstu árum leiddi hún endurreisn Hauka í efstu deild kvenna þar sem liðið varð óstöðvandi og vann alla titla sem voru í boði. Eftir farsælan feril með Haukum fór hún í háskóla og lék með TCU háskólanum í Texas við góðan orðstír þar sem liðinu gekk vel. Er hún sú íslenska kona sem skorað hefur flest stig í bandaríska háskólaboltanum. Eftir fjögurra ára skólavist fór hún í atvinnumennsku í Evrópu og spilaði í Slóvakíu, Ungverjalandi og Póllandi. Lék hún í Euroleague með Good Angels Kosice frá Slóvakíu þar sem liðið fór alla leið í undanúrslit þessara sterkustu keppni Evrópu. Eftir atvinnumannaferilinn kom Helena heim og lék með Haukum og hjálpaði liðinu að verða Íslandsmeistari 2018. Eftir það fór hún erlendis að keppa aftur og þá til Póllands. Kom hún heim á miðju tímabili og gekk til liðs við Val og vann titla með þeim. Eftir Valsdvölina kom hún aftur í Hauka og hefur hjálpað liðinu að vinna titla en liðið er búið að vinna bikarmeistaratitilinn síðustu þrjú tímabil. Hún hefur oftast verið valin körfuknattleikskona ársins eða alls 12 sinnum. Hefur spilað flesta landsleiki allra kvenna með íslenska landsliðinu eða 81.