ÍSÍ bikar 2023
Brettafélag Hafnarfjarðar hlýtur ÍSÍ bikarinn 2023.
Á myndinni eru frá vinstri Þórey Edda Elísdóttir 1. varaforseti ÍSÍ, Jóhann Borgþórsson formaður Brettafélags Hafnarfjarðar, Arnfríður Kristín Arnardóttir stjórnarmaður BFH, Hrafnkell Marinónsson formaður ÍBH.
Brettafélag Hafnarfjarðar hefur frá stofnun félagsins árið 2012 byggt upp öflugt félags- og íþróttastarf fyrir börn og unglinga í íþróttagreinum sem áður hafði ekki verið hægt að stunda með skipulegum hætti undir leiðsögn þjálfara.
Iðkendur félagsins eru nú á fjórða hundrað og er starf þess rekið í þremur deildum þ.e. hjólabrettadeild, snjóbrettadeild og hjólreiðadeild. Brettafélag Hafnarfjarðar er aðili að tveimur sérsamböndum, Skíðasambandi Íslands og Hjólreiðasambandi Íslands, þar sem fulltrúar félagsins hafa tekið virkan þátt í að móta þjálfun, keppnisfyrirkomulag og mótahald.
Brettafélag Hafnarfjarðar starfrækir fjölmennustu snjóbrettadeild landsins og er annað fjölmennasta íþróttafélagið sem stundar skipulegar æfingar í Bláfjöllum. Þá hefur ungt snjóbrettafólk náð góðum árangri bæði innanlands og erlendis t.a.m. hefur félagið átt keppendur á Heimsmeistaramóti unglinga, International Childrens Winter Games, EYOF og mun eiga fulltrúa á Youth Olympic Games í janúar 2024 sem fram fer í Suður-Kóreu. Og nú hefur Vildís Edwinsdóttir brotið blað í sögu snjóbrettaíþróttarinnar á Íslandi með því að verða fyrst kvenna til að ná lágmarki fyrir íslenska snjóbretta landsliðið. Þá eignaðist félagið átta Íslandsmeistara á snjóbrettum og koma bæði Íslandsmeistari kvenna og karla í fullorðinsflokki úr röðum Brettafélags Hafnarfjarðar.
Hjólreiðadeild BFH hefur byggt upp gríðarlega öflugt starf á stuttum tíma, þar sem foreldrar hafa lagt gríðarlega vinnu af hendi við uppbyggingu og mótun starfsemi fjallahjólreiðadeildarinnar. Á árinu 2023 átti félagið 17 bikarmeistara og 18 Íslandsmeistara, þ. á m. Í karla og kvennaflokki fullorðinna í Enduro og Íslandsmeistara kvenna í fullorðinsflokki í XCO (cross country). Þá átti félagið keppanda á Evrópumeistaramóti í fjallabruni sem fram fór í Frakklandi og Heimsmeistaramótinu í hjólreiðum í Glasgow. Efnilegasti hjólreiðamaður ársins kom úr röðum Brettafélags Hafnarfjarðar annað árið í röð.
Að lokum þá er Brettafélag Hafnarfjarðar eina íþróttafélag landsins sem býður uppá skipulagðar æfingar á hjólabrettum og BMX freestyle hjólreiðum. Á annað hundrað barna- og unglinga stunda þessar tvær íþróttagreinar. Forsvarsmenn félagsins hafa unnið gríðarlegt frumkvöðlastarf í uppbyggingu þessara íþrótta og skapað iðkendum félagsins vettvang þar sem þau geta stundað sína íþrótt í öruggu umhverfi innan íþróttahreyfingarinnar. Fyrir tilkomu Brettafélags Hafnarfjarðar stunduðu þessi börn og unglingar sínar íþróttir í bílakjöllurum og á götum úti.