Íþróttabandalagið í Hafnarfirði endurnýjar viðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ

ÍBH fékk fyrst afhenda gæðaviðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ árið 2019. Á árlegri íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar sem fór fram miðvikudaginn 27. desember sl. endurnýjaði ÍBH gæðaviðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Þórey Edda Elísdóttir 1. varaforseti ÍSÍ afhenti Hrafnkatli Marinóssyni formanni ÍBH viðurkenninguna. Stjórn ÍBH telur það vera mikilvægt að þaksamtök íþróttafélaga í Hafnarfirði hafi þessa gæðaviðurkenningu gilda sem er m.a. fordæmisgefandi fyrir íþróttafélög bæjarins og ætti að hvetja þau til dáða að gera slíkt hið sama. Á árinu 2023 byrjaði ÍBH að veita aðildarfélögum sínum hvatastyrk að upphæð kr. 450.000 fyrir að ávinna sér gæðaviðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ / Fyrirmyndardeild ÍSÍ. Hvatastyrkurinn er partur af samningi milli ÍBH, fyrirtækisins Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar. Rio Tinto, Hafnarfjarðarbær og ÍBH, telja það vera bæði mikilvægt og dýrmætt að allar starfseiningar í íþróttahreyfingunni í Hafnarfirði ávinni sér gæðaviðurkenninguna.