Siglingaklúbburinn Þytur 40 ára

 

Siglingaklúbburinn Þytur var stofnaður 19. apríl 1975 af nokkrum áhugamönnum um siglingar. Árið 1971 hafði sjóskátaklúbbur á vegum Skátafélagsins Hraunbúa tekið til starfa og á sama tíma hafði æskulýðsráð Hafnarfjarðar byrjað með siglingaklúbb fyrir unglinga. Þessir tveir hópar störfuðu síðan áfram saman og urðu uppistaðan í Siglingaklúbbnum Þyt. Félagið byrjaði starfsemi sína í Hafnarfjarðarhöfn við slæmar aðstæður. Að ósk bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Garðabæ var komið upp sameiginlegri aðstöðu fyrir Þyt og Siglingaklúbbinn Vog í Garðabæ, í Arnarvogi. Fyrstu árin snérust að mestu um framkvæmdir í Arnarvogi, auk þess sem mikil vinna var lögð í bátasmíðar og viðgerðir. Haldið var uppi öflugu barnastarfi þau sumur sem klúbburinn starfaði í Arnarvogi fyrir félagsmenn og æskulýðshópa frá vinnuskólum og íþróttanámskeiðum bæjanna, auk siglingasýninga. Samstarfi Vogs og Þyts lauk 1980 og flutti Þytur starfsemi sína til Hafnarfjarðar. Klúbburinn starfaði við Óseyrarbraut í Hafnarfirði næstu árin en þurfti að víkja vegna hafnarframkvæmda. Félagið glímdi við algjört aðstöðuleysi í nokkur ár og reyndu félagsmenn að nýta svæði í smábátahöfninni til siglinga. Á 20 ára afmæli félagsins árið 1995 gáfu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði félaginu vilyrði um lóð sunnan við Drafnarslippinn og hófust framkvæmdir á því svæði vorið 1998. Félagið byggði um 350 fermetra húsnæði sem er bátaskýli, skrifstofur og félagsaðstaða. Húsnæðið var tekið í notkun árið 1999. Þytur rekur húsnæðið með rekstrarsamning við Hafnarfjarðarbæ. Þytur hefur einnig komið sér upp góðum bátaflota auk öryggisgæslubáta. Félagið hélt upp á 40 ára afmælið með veglegu afmæliskaffi í félagsaðstöðu sinni sunnudaginn 19. apríl og tók á móti afmælisgjöfum frá Hafnarfjarðarbæ, ÍBH og Siglingasambandi Íslands. Eftirtaldir félagsmenn fengu einnig heiðursmerki frá ÍBH fyrir vel unnin störf við tækifærið. Jón Rafn Sigurðsson, Ásta Torfadóttir, Trausti Ævarsson fengu þjónustumerki ÍBH. Gunnar Geir Halldórsson, Ragnar Hilmarsson og Rúnar Steinsen fengu silfurmerki ÍBH. Pétur Th. Pétursson, Friðrik Friðriksson, Egill Kolbeinsson og Áskell Fannberg fengu gullmerki ÍBH. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar félaginu til hamingju með áfangann og velfarnaðar í starfi. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar úr afmælinu.