Árskort í líkamsrækt fyrir unga og efnilega íþróttamenn frá Hress

Magnús Gauti Úlfarsson ungur og efnilegur íþróttamaður borðtennisdeildar Badmintonfélags Hafnarfjarðar fékk afhent árskort í líkamsrækt frá Líkamsræktarstöðinni Hress. Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍBH afhenti kortið f.h. stjórnar Afreksmannasjóðs ÍBH í Ásvallalaug mánudaginn 28. september sl.

Líkamsræktarstöðin Hress og Afreksmannasjóður Íþróttabandalags Hafnarfjarðar eru búin að vera með samning frá árinu 2005 eða í tíu ár um að veita upprennandi afreksfólki stuðning í formi árskorta í líkamsrækt. Í ár er þessi stuðningur metinn á kr. 70.000 á einstakling.

Íþróttamenn sem fá stuðning þurfa allir að vera unglingalandsliðsfólk eða landsliðsfólk sem er á aldrinum 15 – 20 ára og með framtíðaráætlanir um að stefna á stórmót í framtíðinni.

Myndin sýnir styrkþegann í ár Magnús Gauta Úlfarsson borðtennismann í Badmintonfélagi Hafnarfjarðar. Stjórn Afreksmannasjóðs Íþróttabandalags Hafnarfjarðar óskar styrkþeganum til hamingju en þakkar í leiðinni rekstraraðilum Hress fyrir glæsilegt framlag og vonar eftir áframhaldandi góðu samstarfi við Hress í framtíðinni.