Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2024 Elín Klara og Daníel Ingi

Föstudaginn 27. desember 2024 fór hin árlega Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Móðir Daníels Inga, Birna Björnsdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði Rósa Guðbjartsdóttir afhenti þeim viðurkenningar fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

 

Aðildarfélög ÍBH áttu 382 Íslandsmeistara 2024.

Afrekslið ársins 2024 í Hafnarfirði var meistaraflokkur karla í handknattleik frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Þrettán hópar urðu bikarmeistarar, þar af tíu í efsta flokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki samanlagt utanhúss, Íþróttafélagið Fjörður bikarmeistarar í sundi fatlaðra, Badmintonfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í borðtennis blandað lið, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi kvennaflokkur og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í sundi karlaflokkur.

Fjögur lið urðu deildarmeistarar, tvö í efsta flokki, Badmintonfélag Hafnarfjarðar meistaraflokkur kvenna í borðtennis og Fimleikafélag Hafnarfjarðar meistaraflokkur karla í handknattleik. Meistaraflokkur kvenna hjá Knattspyrnufélaginu Haukum deildarmeistari í 2. deild í knattspyrnu. 4. flokkur karla í handknattleik hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð einnig deildarmeistari á árinu.

Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands-, bikar- eða deildarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 400.000 á titil á meistaraflokk.

Viðurkenning fyrir sérstök afrek. Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í langstökki karla utanhúss. Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í 1500m hlaupi kvenna utanhúss. Birta María Haraldsdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Smáþjóðameistari í hástökki utanhúss. Hera Christensen frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í kringlukasti kvenna í U20 utanhúss. Ísold Sævarsdóttir frjálsíþróttakona varð Norðurlandameistari í sjöþraut kvenna í U18 utanhúss. Róbert Ingi Huldarsson badmintonmaður úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar varð Smáþjóðameistari í badmintoni í liðakeppni. Una Hrund Örvar badmintonkona úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar varð Smáþjóðameistari í badmintoni í liðakeppni. Ingibjörg Erla Grétarsdóttir taekwondokona úr Fimleikafélaginu Björk varð Norðurlandameistari kvenna í flokki -57 í bardaga. Leo Anthony Speight taekwondomaður úr Fimleikafélaginu Björk varð Norðurlandameistari karla í flokki -68 í bardaga. Emilía Ýr Gunnarsdóttir sundkona úr Íþróttafélaginu Firði varð Norðurlandameistari í paraflokki (fatlaðir) í 200m fjórsundi. Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði / Sundfélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í paraflokki í 50m bringusundi og vann brons á Evrópumeistaramóti í paraflokki í 100m flugsundi. Emil Steinar Björnsson frjálsíþróttamaður úr Íþróttafélaginu Firði varð Norðurlandameistari í paraflokki í kúluvarpi og kringlukasti. Hanna Rún Bazev dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar vann brons á Evrópumeistaramóti í latíndönsum í flokki atvinnudansara. Nikita Bazev dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar vann brons á Evrópumeistaramóti í latíndönsum í flokki atvinnudansara. Steinn Jóhannsson sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar varð Norðurlandameistari í 200m fjórsundi í flokki 55-59 ára karla.

Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á íþróttakarli Hafnarfjarðar og íþróttakonu Hafnarfjarðar.

Össur Haraldsson handknattleiksmaður Knattspyrnufélaginu Haukum, Róbert Ingi Huldarsson badmintonmaður Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Nicolo Barbizi dansari Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Ísak Jónsson knattspyrnumaður Knattspyrnufélaginu Haukum, Róbert Ísak Jónsson sundmaður Íþróttafélaginu Firði / Sundfélag Hafnarfjarðar, Anton Sveinn McKee sundmaður Sundfélagi Hafnarfjarðar, Leo Anthony Speight taekwondomaður Fimleikafélagið Björk, Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður Fimleikafélag Hafnarfjarðar, Aron Pálmarsson handknattleiksmaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Róbert Ægir Friðbertsson hjólreiðamaður úr Hjólreiðafélaginu Bjarti, Guðbjörg Reynisdóttir bogfimikona Bogfimifélaginu Hróa Hetti, Irma Gunnarsdóttir frjálsíþróttakona Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir taekwondokona Fimleikafélagið Björk, Vala Dís Cicero sundkona Sundfélag Hafnarfjarðar, Þóra Kristín Jónsdóttir körfuknattleikskona Knattspyrnufélagið Haukar, Sara Rós Jakobsdóttir dansari Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Gerda Voitechovskaja badmintonkona Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Sól Kristínardóttir Mixa borðtenniskona úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Aníta Ósk Hrafnsdóttir frjálsíþrótta- og lyftingakona úr Íþróttafélaginu Firði og Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona Knattspyrnufélaginu Haukum.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2024 er Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum.

Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum. Á tímabilinu 2023-2024 leiddi hún meistaraflokk Hauka til úrslita í Íslandsmótinu. Að tímabilinu loknu var Elín Klara valin besti leikmaður deildarinnar annað tímabilið í röð en Elín var einnig markahæsti leikmaður deildarinnar. Elín Klara átti fast sæti í A-landsliði kvenna á árinu sem tryggði sig inn á lokakeppni Evrópumóts í fyrsta skiptið í 12 ár. Elín Klara var þar í stóru hlutverki þar sem hún stýrði leik liðsins og var ein af markahæstu leikmönnum liðsins. Á árinu lék Elín Klara einnig með U-20 ára landsliðinu

þar sem þær léku í lokakeppni HM og náðu 7. sæti sem er besti árangur liðsins fyrr og síðar.  

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2024 er Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður í FH. Daníel hefur  náð stórstígum framförum í langstökki og þrístökki síðustu þrjú ár. Hann varð m.a. Norðurlandameistari í þrístökki árið 2023 með 15,98 m. Á þessu ári komst Daníel í hóp þeirra allra bestu í heiminum í langstökki þegar hann varð Norðurlandameistari með 8,21m og bætti þar með 28 ára gamalt Íslandsmet  Jóns Arnars Magnússonar.  Á þessu ári er Daníel í 17. sæti bestu langstökkvara í heimi.  Afrek Daníels Inga er besta afrek FH-ings frá upphafi í frjálsíþróttum og fimmta besta afrek Íslendings í frjálsíþróttum frá upphafi skv. 

afreksstigum alþjóða frjálsíþróttasambandsins.  

Afrekslið ársins í Hafnarfirði 2024 er meistaraflokkur karla í handknattleik hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.  

Meistaraflokkur karla hjá FH varð bæði deildar- og Íslandsmeistarar á árinu. Liðið lék afar vel í deildarkeppninni á síðasta tímabili og endaði á því að tryggja sér deildarmeistaratitillinn í lokaumferð deildarinnar. FH varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 2011 og í 16. sinn innanhúss. FH-liðið tók einnig þátt í Evrópubikarnum á sl. tímabili og náði þar frábærum árangri.  

Sérstök viðurkenning.

Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar hefur ákveðið að heiðra ákveðin aðila innan íþróttahreyfingarinnar fyrir frumkvöðlastarf og einstakan árangur. Um er að ræða íþróttamann sem nýverið tilkynnti að hann væri hættur keppni. Í ár tilkynnti Anton Sveinn Mckee að hann hefði lagt keppnisskýlu sína á hilluna eftir farsælan feril sem einn af bestu íslensku sundmönnum og íþróttamönnum landsins fyrr og síðar. Íþrótta- og tómstundanefnd vill því nota tækifærið hér og nú og heiðra Anton. Hann byrjaði snemma eða 7-8 ára að æfa á venjulegum sundæfingum hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar. Um 12 ára aldur byrjar hann að komast í úrslit sundmóta, í kjölfarið hófst langur ferill sem skilar mörgum Íslandsmeistaratitlum í  200 til 1.500m skriðsundi, 400m fjórsundi og 50-200m bringusundi. En í dag á hann 13 Íslandsmet og 8 Íslandsmet unglinga. Anton fékk námsstyrk fyrir háskólanámi í Alabama 2013-2017, þar sem hann breytti áherslum sínum í sundi  úr langssundgreinum yfir í bringusundssérfræðing í styttri vegalengdum. Hann hélt áfram æfingum og keppni að mestu í Bandaríkjunum í Vestur-Virginíu eftir háskólanámið eða til 2023 sem atvinnumaður en keppti þess á milli með Íslandi og Sundfélagi Hafnarfjarðar þegar hann kom heim. Hann tók þátt í 8 Evrópumeistaramótum, með besta árangri sínum í spennandi úrslitasund í 200m bringusundi: 4. sæti í Belgrad júlí 2024. Hann tók þátt í 8 heimsmeistaramótum með góðum árangri og oft í 16 mannaúrslitum og besti árangur hans þar var 6. sæti í 200m bringsundi 2022 í Búdapest. Anton vann sér inn keppnisrétt á fjórum Ólympíuleikum, 2012 í London, 2016 í  Rio, 2021 í Tókýó og loks núna 2024 í París með sinn besta árangur þar sem hann komst í 16 manna úrslit í 200m bringusundi. Hafnarfjarðarbær, íþrótta- og tómstundanefnd og Íþróttabandalagið í Hafnarfirði þakkar Antoni Sveini hér með fyrir framlag sitt sem afreksíþróttamaður og fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk. Árangur hans og ferill er einstakur og takk Anton Sveinn fyrir þitt framlag.