Golfklúbburinn Setberg 20 ára
Golfklúbburinn Setberg var stofnaður 27. nóvember 1994 af um fimmtíu áhugamönnum um golfíþróttina. Framkvæmdir við vallarbyggingu hófust 1993 og var Setbergsvöllur opnaður formlega 23. júní 1995. Völlurinn er á mörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Í upphafi átti félagsbúið Setberg völlinn og leigði Golfklúbbnum hann. Setbergsvöllur er 9 holur, með tvöföldu teigasetti, par 72. Níu holu par 3 völlur opnaður 1997. Miklar endurbætur hafa farið fram á vellinum frá því hann var opnaður. Karlasveit frá GSE tók í fyrsta skipti þátt í sveitakeppni hjá GSÍ árið 1996 í fimmtu deild karla. Félagið vann sig hratt upp og keppti í fyrsta skipti í 1. deild árið 2000. Árið 2007 var ákveðið að taka völlinn undir íbúðabyggð í Garðabæ og var landið selt. Eftir sumarið 2007 var gert hlé á starfsemi félagsins og var iðkendum boðin innganga í Golfklúbbinn Keili. Starfsemin lagðist að mestu niður 2007 til 2010 vegna óvissu um rekstur golfvallarins. GSE tók aftur við rekstrinum árið 2011 og er iðkendafjöldi nú orðinn 480. Félagið hélt upp á 20 ára starfsafmæli þann 23. júní sl með veglegri veislu í félagsaðstöðu GSE. Félaginu bárust góðar gjafir m.a. frá Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar og Golfklúbbnum Keili. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar félaginu til hamingju með áfangann og velfarnaðar í starfi í framtíðinni. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar úr veislunni.