SÍH 50 ára afmæli

Skotíþróttafélag Hafnarfjarðar var stofnað 11. október 1965 af nokkrum áhugamönnum um skotfimi. Félagið hét fyrst Skotfélag Hafnarfjarðar og hafði þann tilgang að kenna félagsmönnum meðferð skotvopna til íþróttaiðkana. Síðar var nafninu breytt í Skotíþróttafélag Hafnarfjarðar til að leggja áherslu á að félagið væri íþróttafélag en ekki veiðifélag. Iðkendur SÍH hafa eingöngu æft og keppt í ólympískum skotgreinum. Í upphafi var aðallega æft og keppt í markskotfimi með 22ja cal. markrifflum í húsnæði bifreiðaverkstæðis Þorgeirs Hálfdánarsonar við Dalshraun. Vorið 1968 hófust fyrstu framkvæmdir við æfingasvæði félagsins í Seldal ofan Hvaleyrarvatns. Sumarið 1971 var æfingasvæðið í Seldal tekið formlega í notkun og æft tvisvar til þrisvar í viku. Inniæfingar hófust í aðstöðu í kjallara íþróttahússins við Strandgötu árið 1973 eftir að félagsmenn höfðu komið aðstöðunni í æfingahæft ástand. Árið 1988 var ráðist í gerð vallar fyrir haglabyssuskotfimi „SKEET“ sem hafið ekki verið stunduð áður hjá félaginu. Skotsamband Íslands var þá með sérstakt átak í gangi til útbreiðslu haglabyssuskotfimi. Félagið fékk lóð fyrir völlinn við Óbrynnishóla við Bláfjallarveg ofan Hafnarfjarðar til brágðabirgða meðan leitað yrði að hentugra svæði. Félagið flutti síðan starfsemi sína á iðnaðarsvæðið í Kapelluhrauni ofan Straumsvíkur. Ný aðstaða sem hlaut nafnið Iðavellir var tekin í notkun 5. janúar 1999. Félagið hefur lagt sérstaka áherslu á að fegra umhverfið og gera það sem mest aðlaðandi. Í dag eru tveir glæsilegir skeetvellir, einn norrænn trappvöllur og félagsaðstaða á svæðinu. Félagið hefur eignast fjölda Íslandsmeistara í bæði einstaklings- og liðakeppni. Iðkendur félagsins eru 225. Félagið hélt upp á hálfrar alda afmælið 4. júlí sl með glæsilegri veislu í félagsaðstöðu sinni. Við það tækifæri voru eftirtaldir félagsmenn heiðraðir Jakob Þór Leifsson, Kristinn Rafnsson og Sigurþór Jóhannesson sem fengu silfurmerki ÍBH og Anders Már Þráinsson og Stefán Geir Stefánsson sem fengu gullmerki ÍBH. Ingvar Kristinsson varaformaður ÍBH var viðstaddur afmælishófið og færði félaginu áletraðann glergrip og peningagjöf frá ÍBH í tilefni afmælisins. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar félaginu til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.