Kvartmíluklúbburinn 40 ára
Kvartmíluklúbburinn var stofnaður 6. júní 1975 í Laugarásbíó í Reykjavík. Örvar Sigurðsson var fyrsti formaður hans. Markmiðið með stofnuninni var að losna við hraðakstur af götum höfuðborgarsvæðisins og byggja upp keppnisbrautir á lokuðu og öruggu svæði utan alfara leiða. Félagið fékk úthlutað landi í Kapelluhrauni ofan Straumsvíkur og hófust framkvæmdir við brautargerðina árið 1977. Brautin var tekin í notkun árið 1979. Kvartmíla er 402 metrar. Brautin hefur einnig verið nýtt til æfinga- og kennsluaksturs hjá ökukennurum og lögreglu. Bifreiðaumboð og Iðntæknistofunun hafa einnig notað brautina til ýmis konar mælinga. Brautin er á skrá flugmálayfirvalda sem neyðarflugbraut. Undanfarin ár hafa átt sér stað miklar endurbætur á svæði félagsins, félagsheimilið hefur verið endurbætt, brautin verið endurbætt og malbikuð, hringakstursbraut til baka gerð og malbikuð. Félagið hefur gert samning við Ökukennarafélag Íslands um leigu af svæðinu sem gerir félaginu kleift að halda áfram frekari uppbyggingu á svæðinu. Félagið er með 399 iðkendur. Formaður félagsins er Ingólfur Arnarson. Félagið hélt 40 ára afmælisveislu laugardaginn 10. október sl í félagsheimilinu og bauð gestum m.a. í akstur á brautinni. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH afhenti félaginu glergrip og peningagjöf frá bandalaginu í tilefni afmælisins. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar félaginu til hamingju með 40 árin og velfarnaðar í starfi.