SH 70 ára
Sundfélag Hafnarfjarðar var stofnað 19. júní 1945 í Sjálfstæðishúsinu. Árið 1943 hafði sundlaugin við Krosseyrarmalir verið tekin í notkun og þótti fólki í bænum nauðsynlegt að stofna sundfélag í kjölfar þess. Á stofnfundi ÍBH 28. apríl 1945 var hreyft við málinu sem bar þann árangur að farið var að safna undirskriftum til stuðnings því að stofnað yrði félag. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn og íþróttafrömuður var fyrsti formaður félagsins. Lokið var við að byggja yfir sundlaugina 13. júní 1953 og eftir það hét hún Sundhöll Hafnarfjarðar. Reglulegar sundæfingar hafa farið fram á vegum SH frá og með þeim tíma. Árið 1959 var farið að æfa sundknattleik hjá félaginu og hefur hann verið iðkaður með nokkrum hléum síðan þá. Með opnun Suðbæjarlaugar árið 1989 fékk félagið aukna aðstöðu sem skilaði fljótt betri árangri og auknum áhuga á sundi. Félagið fékk félags- og þrekaðstöðu í kjallara laugarinnar en skrifstofuaðstöðu í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Árið 2008 var Ásvallalaug tekin í notkun og færði félagið alla sína starfsemi í hana. Þríþrautardeild var stofnuð árið 2010 í félaginu. Félagið hefur náð frábærum árangri í gegnum tíðina, á fjöldann allan af Íslands- og bikarmeisturum og hefur átt fjölda keppenda á EM, HM og Ólympíuleikum. Iðkendur félagsins eru 745. Formaður félagsins er Karl Georg Klein. Félagið hélt veglega afmælisveislu ásamt sögusýningu í Ásvallalaug 10. október sl, við það tækifæri færði formaður ÍBH Hrafnkell Marinósson félaginu peningagjöf frá bandalaginu og áritaðann glergrip. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar félaginu áframhaldandi velgegni í framtíðinni.