HFH 10 ára

Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar hóf starfsemi vorið 2005. Starfið fór þó ekki á fullt fyrr en félagið fékk bráðabirgða aðstöðu í Kaplakrika í nóvember 2005. HFH var fyrst íslenskra hnefaleikafélaga til að senda keppendur á stórmót erlendis sem voru þau Arndís Birta Sigursteinsdóttir og Stefán Breiðfjörð Gunnlaugsson sem kepptu á Evrópumeistaramótum árið 2006. Fljótlega eftir þing ÍBH á vormánuðum 2007 fékk félagið aðstöðu að Dalshrauni 10. Félagið fékk styrk frá Hafnarfjarðarbæ til að endurbæta húsnæðið áður en það var tekið í notkun, en í ársbyrjun 2008 hafði félagið fengið samning um rekstrarstyrk frá Hafnarfjarðarbæ. Árið 2009 hélt félagið tvö stór mót í hnefaleikum af sex sem voru haldin á Íslandi. Árið 2010 unnu keppendur HFH tvo Íslandsmeistaratitla í hnefaleikum, einnig átti félagið hnefaleikamann ársins 2010 sem var kosinn af hnefaleikanefnd ÍSÍ og öllum þjálfurum félaga sem iðkuðu hnefaleika, það var Adam Freyr Daðason. Félagið hélt þrjú mót á árinu 2010 sem voru vel sótt og hélt upp á 5 ára afmæli félagsins með opnu húsi þar sem haldnar voru sýningar og boðið upp á veitingar.  Starfsárið 2013 var gert átak í að reyna að laða iðkendur til félagsins og reyndist eftirspurn meiri í sumum greinum en félagið réði við. Félagið sendi keppendur á Íslandsmót árið 2013 og sigraði Arnór Már Grímsson HFH í sínum flokki. Keppnishópur félagsins náði bestum árangri sem íslensk hnefaleikafélög hafa náð á fjölsóttu móti í Danmörki árið 2013. Á haustmánuðum 2015 var stofnað sérsamband hjá ÍSÍ um hnefaleikaíþróttina, Hnefaleikasamband Íslands og er Ásdís Rósa Gunnarsdóttir stjórnarmaður í HFH fyrsti formaður sambandsins. Laugardaginn 28. nóvember sl. hélt félagið diplomamót og 10 ára afmælisveislu að viðstöddum fjölda gesta. Við það tækifæri færði ÍBH félaginu áletraðann glergrip og peningagjöf og það sama gerði Hafnarfjarðarbær. Myndirnar sem fylgja fréttinni voru teknar í veislunni. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar óskar félaginu til hamingju með áfangann og góðs gengis í framtíðinni.