Hrafnhildur og Axel íþróttafólk Hafnarfjarðar 2015

Í dag fór fram Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Einstaklingar sem urðu Íslandsmeistarar með hafnfirskum íþróttafélögum á árinu 2015 fengu afhenda viðurkenningu frá Hafnarfjarðarbæ. Í ár voru það samtals 489 einstaklingar úr 19 íþróttagreinum frá 13 íþróttafélögum af 18 innan ÍBH. Flestir titlar í grein í félagi unnust í knattspyrnu hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, 122, næstflestir titlar unnust í frjálsum íþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, 119 og í þriðja sæti urðu titlar í sundi hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar, 46. Samtals átti FH 62,2% titlana, Sundfélag Hafnarfjarðar 10,2%, og Knattspyrnufélagið Haukar 8,8%, önnur íþróttafélög voru langt frá þessum þremur félögum.

Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var kjörin Íþróttakona Hafnarfjarðar og Axel Bóasson  golfmaður úr Golfklúbbnum Keili var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar. Efri myndin er af Axel, Hrafnhildi og Haraldi Líndal Haraldssyni bæjarstjóranum í Hafnarfirði. Neðri myndirnar eru annars vegar af Haraldi Líndal Haraldssyni bæjarstjóra og Davíð Þór Viðarssyni fyrirliða meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá FH og hins vegar af Benedikt Olgeirssyni varaformanni FH og Líney Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ.

Sjö hópar urðu Íslandsmeistarar í efsta flokki í eftirtöldum íþróttagreinum, skotíþróttum karla, skotíþróttum kvenna, skylmingum blönduð sveit, frjálsum íþróttum karla, knattspyrnu karla (FH), siglingum kjölbáta og handknattleik karla (Haukar).

Ellefu hópar urðu bikarmeistarar, þar af fimm í efsta flokki, í eftirtöldum íþróttagreinum, í sundi fatlaðra, í golfi kvenna (stigameistarar), í sundi í karlaflokki, í sundi í kvennaflokki og í siglingum.

Tveir einstaklingar hlutu sérstakar viðurkenningar fyrir afrek á árinu, Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttamaður úr FH Norðurlandameistari í sleggjukasti 19 ára og yngri karla og Ragnar Ingi Sigurðsson skylmingamaður úr FH Norðurlandameistari í skylmingum í liðakeppni karla.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá FH var valinn Íþróttalið Hafnarfjarðar 2015.

Íþróttafélög sem urðu Íslands- og eða bikarmeistarar í efsta flokki á árinu hlutu afhenda viðurkenningarstyrki frá Hafnarfjarðarbæ samtals 12 hópar.

Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi afhenti fulltrúum íþróttafélaga styrki vegna íþróttastarfsins 16 ára og yngri samkvæmt samningi milli ÍBH, Rio Tinto Alcan og Hafnarfjarðarbæjar að upphæð 7,2 milljónum króna sem skiptist milli ellefu íþróttafélaga eftir námskrám og þjálfaramenntun.

Sautján afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á Íþróttakonu og Íþróttakarli Hafnarfjarðar, þeir voru eftirtaldir, Kári Jónsson Haukum körfuknattleikur, Signý Arnórsdóttir Keili golf, Gunnar Geir Halldórsson Þytur siglingar, Giedrius Morkunas Haukum handknattleikur, Aníta Ósk Hrafnsdóttir Fjörður sund, Róbert Ingi Huldarsson BH badminton, Trausti Stefánsson FH frjálsar íþróttir, Hjördís Rósa Guðmundsdóttir BH tennis, Kolbeinn Hrafnkelsson SH sund, Björgvin Stefánsson Haukar knattspyrna, Auður Íris Ólafsdóttir Haukum körfuknattleikur, Axel Bóasson Keili golf, Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH frjálsar íþróttir, Davíð Þór Viðarsson FH knattspyrna, Hrafnhildur Lúthersdóttir SH sund, Róbert Ísak Jónsson Fjörður sund og Elín Jóna Þorsteinsdóttir Haukum handknattleikur.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2015 er Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar og landsliðskona í sundi. Hrafnhildur er margfaldur Íslandsmeistari í einstaklingsgreinum í sundi.Vann 6 gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum 2015. Tók þátt í heimsmeistaramótinu í Kazan í Rússlandi, náði frábærum árangri og varð þar fyrst íslenskra kvenna til að synda í úrslitum á 50m braut. Hefur áunnið sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2015 er Axel Bóasson golfmaður úr Golfklúbbnum Keili og landsliðsmaður í golfi. Axel er Íslandsmeistari í holukeppni karla 2015 og Stigameistari karla. Axel tryggði sér keppnisrétt á Nordic League atvinnumótaröðinni á árinu og er það í annað skipti sem Íslendingur nær því markmiði. Axel keppti víðsvegar í Evrópu á árinu.

ÍSÍ bikar

Bikarinn er veittur árlega því félagi innan ÍBH sem skarar fram úr í uppbyggingu félags- og íþróttastarfs og fyrir góðan árangur. Í ár hlýtur Fimleikafélag Hafnarfjarðar ÍSÍ bikarinn. Framkvæmdastjóri ÍSÍ Líney Rut Halldórsdóttir afhenti Benedikt Olgeirssyni varaformanni FH bikarinn í dag á árlegri Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar. FH er fjölgreinafélag þar sem rekið er öflugt barna- og unglingastarf og afreksstarf. Allar íþróttagreinar sem stundaðar eru í félaginu eiga Íslandsmeistara á árinu. Skylmingar, knattspyrna og frálsar íþróttir eiga meistaraflokka sem eru Íslandsmeistarar hópa. Knattspyrna og frjálsar íþróttir eiga unglingahópa sem urðu bikarmeistarar á árinu. Félagið á flesta Íslandsmeistaratitla í Hafnarfirði 2015 samtals 304. Félagið tók þátt í mörgum alþjóðlegum verkefnum á árinu og á landsliðsfólk í öllum greinum sem eru stundaðar í félaginu.