Haukar 85 ára og taka skóflustungu að nýjum íþróttasal

Knattspyrnufélagið Haukar hélt upp á 85 ára afmæli sitt með glæsilegri hátíð á Ásvöllum 12. apríl sl. Formaður Hauka Samúel Guðmundsson og bæjarstjórinn í Hafnarfirði Haraldur Líndal Haraldsson byrjuðu hátíðina á því að undirrita bæði nýjan rekstrar- og þjónustusamning við félagið. Síðan tóku þeir skóflustungu að nýjum íþróttasal sem verður 36m x 44m að stærð, með tveimur fullstórum æfingavöllum fyrir körfuknattleik, með möguleika á keppnisvelli með áhorfendasvæði allt í kring. Hafnarfjarðarbær hefur samkvæmt fjárhagsáætlun samþykkt 50 milljón króna framlag til verksins á þessu ári. En samningur um byggingu hefur ekki verið gerður. Haukar stefna að því að taka salinn í notkun árið 2017. Sr. Kjartan Jónsson blessaði nýja gervigrasið á knattspyrnuvelli félagsins umkringdur áhugasömum Haukaiðkendum. Að því loknu buðu Haukar gestum í hús, kynntu byggingaráform félagsins ásamt því að bjóða gestum að þiggja girnilegar veitingar. Félagið stefnir að því að byggja knatthús í stærðinni 66m x 44m sem á að rísa vorið 2018, nýjan forsal við nýja íþróttahúsið sem á að rísa haustið 2018, nýja knattspyrnustúku með búningsklefum fyrir knattspyrnuiðkendur sem á að rísa vorið 2019, íbúðir fyrir eldri Hauka sem eiga að rísa vorið 2020 og knattspyrnuhús í fullri stærð sem á að rísa vorið 2021. Við þetta tækifæri voru tveir Haukafélagar heiðraðir með  gullstjörnu Hauka, þau Ruth Guðmundsdóttir og Egill Egilsson fyrir margra áratuga frábært starf fyrir félagið.