Frábærum árangri Hrafnhildar á EM fagnað

Þriðjudaginn 24. maí sl stóðu Íþróttabandalagið í Hafnarfirði, Sundfélag Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbær fyrir móttöku í Ásvallalaug til heiðurs Hrafnhildar Lúthersdóttur sundkonu úr SH. Hrafnhildur vann til silfurverðlauna í 100m bringusundi og 50m bringusund og bronsverðlauna í 200m bringusundi á Evrópumóti í sundi í 50m laug í London. Hrafnhildur var heiðruð með gjöfum og blómum. Hrafnkell Marinósson formaður Íþróttabandalags Hafnarfjarðar stýrði athöfninni þar sem eftirtaldir aðilar fluttu ávörp, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Lárus Blöndal forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands,  Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Hlín Ástþórsdóttir varaformaður Sundsambands Íslands, Dröfn Ívarsdóttir framkvæmdastjóri Speedo á Íslandi og Karl Georg Klein formaður Sundfélags Hafnarfjarðar. Sundhreyfingunni allri var óskað til hamingju með frábæran árangur á EM og sérstaklega verðlaunahafanum Hrafnhildi. Guðlaug Kristjánsdóttir færði Hrafnhildi styrk að upphæð kr. 750.000 frá Hafnarfjarðarbæ til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana sem fara fram í sumar í Ríó. ÍSÍ færði öllum keppendum, landsliðsþjálfara, fararstjóra, sjúkraþjálfara, varaformanni SSÍ og formanni SH blóm fyrir glæsilega frammistöðu á EM. Sundsamband Íslands heiðraði einnig alla keppendur, landsliðsþjálfara, fararstjóra og sjúkraþjálfara með blómum og gjöfum. Eingöngu þrír keppendur af fimm gátu mætt til móttökunnar, auk Hrafhildar voru það Eygló Ósk Gústafsdóttir og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir. Bryndís Rún Hansen og Anton Sveinn Mckee gátu ekki mætt. Framundan eru Ólympíuleikarnir í Ríó og verður spennandi að fylgjast með sundfólkinu þar. Myndirnar með fréttinni eru úr móttökunni. Inn á Facebooksíðu Hafnarfjarðarbæjar má sjá fleiri myndir sem Andri Ómarsson tók.