Hrafnhildur fær afreksstyrk vegna EM í London

Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar tók þátt á Evrópumótinu í 50 metra laug í London sem fór fram dagana 16. – 22. maí 2016. Árangur Hrafnhildar á mótinu var glæsilegur og vann hún til þrennra verðlauna. Hrafnhildur byrjaði á að vinna silfurverðlaun í 100m bringusund á tímanum 1:06,45 mín sem er nýtt Íslandsmet. Önnur verðlaun Hrafnhildar voru bronsverðlaun í 200m bringusundi á tímanum 2:22,96 mín og nýju Íslandsmeti. Þriðju verðlaun Hrafnhildar voru silfurverðlaun í 50m bringusundi á tímanum 30,91 sek. Í undanúrslitum synti Hrafnhildur á 30,83 sek og setti Íslandsmet. Hrafnhildur synti einnig með íslensku kvennasveitinni í 4 x 100m fjórsundi og var sveitin nálægt því að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Ríó. Afreksmannasjóður ÍBH veitti Hrafnhildi styrk að upphæð kr. 150.000 vegna þátttöku á Evrópumótinu í London.