Unglingalandsmót UMFÍ Borgarnesi 2016

19. Unglingalandsmót UMFÍ var haldið um verslunarmannahelgina frá fimmtudeginum 28. júlí til mánudagsins 1. ágúst. Setning mótsins fór fram föstudagskvöldið 29. júlí á íþróttavellinum í Borgarnesi að viðstöddu fjölmenni. Hafnfirski söngvarinn Jón Ragnar Jónsson tók lagið í setningarathöfninni og þrír bestu 100m hlauparar landsins úr FH, þeir Ari Bragi Kárason (10,38 sek), Kolbeinn Höður Gunnarsson (10,39 sek) og Trausti Stefánsson (10,76 sek) hlupu hraðasta 100m hlaup sögunnar á Íslandi í sýningarhlaupi, vindur í hlaupinu var of mikill. 1500 keppendur kepptu í 14 greinum af ýmsum toga, körfuknattleikur, knattspyrna og frjálsíþróttir voru fjölmennustu greinarnar. Samtals skráðu sig 83 keppendur á mótið undir merkjum ÍBH,  þar af voru 45 keppendur í frjálsíþróttum, 8 í sundi, 2 í skák, 3 í golfi, 5 í stafsetningu, 4 í upplestrarkeppni, 5 í Ólympískum lyftingum, 5 í glímu, 5 í skotfimi, 1 í hestaíþróttum, 3 í mótocrossi, 2 í fjallahjólreiðum, 7 lið voru skráð í knattspyrnu og 3 í körfuknattleik. Myndin er frá setningu mótsins.