Hafnarfjarðarbær heiðrar íþróttafólk – Axel og Hrafnhildur best
Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram í dag með athöfn í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Einstaklingar sem urðu Íslandsmeistarar fengu viðurkenningar. Hópar, pör og einstaklingar sem urðu bikarmeistarar fengu einnig viðurkenningar. Íþróttamenn sem unnu stór afrek á árinu voru heiðraðir. Tilkynnt var um íþróttalið Hafnarfjarðar. Veittir voru afreksstyrkir til hópa í efsta flokki sem urðu Íslandsmeistarar og bikarmeistarar. Íþróttastyrkir fyrir 16 ára og yngri út frá samningi milli ÍBH, Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar voru veittir fulltrúum íþróttafélaga. Fulltrúi frá ÍSÍ afhenti ÍSÍ bikarinn. Tilkynnt var um nýjan samning um stuðning við íþróttastarfið 16 ára og yngri milli ÍBH, Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar til næstu þriggja ára.18 afreksmenn voru heiðraðir fyrir framúrskarandi árangur á árinu og úr hópi þeirra var Axel Bóasson kylfingur úr Golfklúbbnum Keili valinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar og Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona Sundfélagi Hafnarfjarðar valin Íþróttakona Hafnarfjarðar. Myndin sýnir frá vinstri Harald Líndal Haraldsson bæjarstjórann í Hafnarfirði, Hrafnhildi Lúthersdóttir og Axel Bóasson.
Íslandsmeistarar
536 einstaklingar urðu Íslandsmeistarar með aðildarfélögum ÍBH. Flestir Íslandsmeistarar komu frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar samtals 280 (52,2%), næstflestir komu frá Sundfélagi Hafnarfjarðar samtals 103 (19,2%) og í þriðja sæti var Knattspyrnufélagið Haukar með samtals 38 (7,08%). Flestir Íslandsmeistarar komu úr knattspyrnu frá FH samtals 163, næstflestir komu úr frjálsíþróttum frá FH samtals 110 og í þriðja sæti voru sundmenn frá SH samtals 101, sjá nánar hér.
Átta hópar urðu Íslandsmeistarar í efsta flokki, sjá nánar hér.
Bikarmeistarar
Fimm hópar í unglinga- og ungmennaflokkum urðu bikarmeistarar. Átta hópar urðu bikarmeistarar í efsta flokki og einn í næstefstu deild. Fjögur pör urðu bikarmeistarar para. Átta einstaklingar urðu bikarmeistarar einstaklinga, sjá nánar hér.
Stór afrek á árinu
Átta einstaklingar unnu stór íþróttaafrek á árinu, sjá nánar hér.
Íþróttalið Hafnarfjarðar 2016
Íþróttalið Hafnarfjarðar 2016 er karla- og kvennalið FH í frjálsíþróttum. Liðið er Íslandsmeistari félagsliða í frjálsíþróttum utanhúss, bikarmeistari félagsliða í frjálsíþróttum innanhúss og utanhúss og áttu liðsmenn góðu gengi að fagna á alþjóðlegum mótum á árinu. Átta landsliðsmenn kepptu á Smáþjóðameistaramóti landsliða á Möltu, einn keppandi keppti á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Amsterdam í Hollandi, þrír keppendur kepptu á Norðurlandamóti í frjálsíþróttum innanhúss, auk þess tóku liðsmenn þátt í fjölda verkefna í unglinga- og ungmennaflokkum erlendis með góðum árangri.
Afreksmenn
Átján afreksmenn aðildarfélaga ÍBH voru heiðraðir og úr þeirra röðum voru Íþróttkarl og Íþróttakona Hafnarfjarðar valin. Sjá tilnefningar hér.
Íþróttakona Hafnarfjarðar 2016
Íþróttakona Hafnarfjarðar 2016 er Hrafnhildur Lúthersdóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar.
Hrafnhildur er sundkona í bringusundi og fjórsundi. Margfaldur Íslandsmeistari, Íslandsmethafi og landsliðskona í sundi. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna til verðlauna á Evrópumeistaramóti í 50m laug á árinu þar sem hún vann tvenn silfurverðlaun fyrir 50m bringusund á tímanum 30,91 sek. og 100m bringusund á tímanum 1:06,45 mín. og ein bronsverðlaun fyrir 200m bringusund á tímanum 2:22,96 mín. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar og náði þeim frábæra árangri að verða sjötta í 100m bringusundi á tímanum 1:07,18 mín og í 11. sæti í 200m bringusundi á tímanum 2:24,41 mín. Árangur Hrafnhildar er besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikunum. Í desember keppti Hrafnhildur á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25m laug í Windsor í Kanada og náði þeim frábæra árangri að setja Íslandsmet í hverju sundi sem hún synti samtals sjö met, annars var árangur hennar í einstaklingsgreinum á mótinu eftirfarandi, 50m bringusund 13. sæti á tímanum 30,47 sek., 100m bringusund 1:05,56 mín. 14. sæti, 100m fjórsund 11. sæti á tímanum 1:00,31 mín.
Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2016
Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2016 er Axel Bóasson Golfklúbbnum Keili.
Axel er meðal bestu kylfinga á Íslandi í dag og lék í ár á Nordic tour sem atvinnumaður í golfi á sínu fyrsta ári og hélt sæti sínu í mótaröðinni. Axel varð klúbbmeistari Keilis, sigraði á Borgunarmótinu, Securitasmótinu, á Eimskipsmótaröðinni, varð stigameistari Golfsambands Íslands og varð í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Hann var með meðalskor upp á 69 högg hér heima sem verður að teljast ótrúlega góður árangur. Til samanburðar er meðalskorið á PGA mótaröðinni 71,3 högg og lægsta meðalskorið 69,1 högg. Axel tók þátt í fjölda alþjóðlegra móta á árinu.
ÍSÍ bikar
Fimleikafélagið Björk er handhafi ÍSÍ bikarsins 2016. Sigríður Jónsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ afhenti Ingvari Kristinssyni formanni Fimleikafélagsins Björk bikarinn á Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðar í dag.
Félagið er búið að halda úti starfi í 65 ár. Í upphafi bauð félagið upp á leikfimi, um tíma upp á körfubolta, en síðan eingöngu upp á fimleika. Frá og með árinu 2001 bættust klifur, taekwondo og eitt og annað undir almenningsíþróttadeild við. Flóra fimleika félagsins er orðin fjölbreyttari með hópfimleikum, stökkfimi og Parkour til viðbótar við hefðbundna áhaldafimleika. Fimleikafélagið Björk hefur undanfarin ár lagt mikið í uppbyggingarstarf í yngstu aldursflokkunum. Leikskólahópar fyrir tveggja til fimm ára börn hafa verið fjölmennir en illa tókst að brúa bilið frá þeim yfir í fyrstu fimleikahópana. Með markvissri vinnu hefur það tekist í dag og aukið iðkendafjölda mikið. Félaginu hefur gengið vel við að minnka brottfall og býður upp á fleiri getustig í hópum. Afreksstarf félagsins hefur einnig gengið frábærlega á þessu ári. Í fyrsta skipti í sögu félagsins átti félagið bikarlið í frjálsum æfingum áhaldafimleika karla. Nær 20 ára uppbyggingarstarf félagsins í áhaldafimleikum karla er að skila þessum árangri. Björk sendi 2 lið til keppni í bikarkeppni í frjálsum æfingum áhaldafimleika kvenna og gerði harða atlögu að titlinum í ár. Félagið á Íslandsmeistaratitla í fullorðinsflokki kvenna, í unglingaflokkum drengja og stúlkna í áhaldafimleikum og fjölda landsliðsfólks í áhaldafimleikum. Klifurdeildin hefur vaxið gríðarlega á árinu og hefur aldrei verið stærri með rétt tæplega 90 iðkendur. Félagið hefur ætíð átt keppendur á verðlaunapöllum á helstu mótum landsins og vann Íslandsmeistaratitla. Taekwondodeild félagsins hefur verið í nokkurri lægð síðustu ár eftir að hafa verið eitt öflugasta félagið á landinu í greininni um skeið. Björn Þorleifsson margfaldur meistari í þessari grein kom aftur til starfa hjá félaginu í haust og hefur strax sett mark sitt á starfið. Lífið í deildinni hefur stóraukist með skemmtilegum viðburðum innanhúss, m.a. með heimsókn kennara á heimsmælikvarða nú í haust, sá var meðal annars verðlaunahafi á Ólympíuleikunum í London árið 2012.
Í almenningsdeild félagsins er kenndur sýningardans og er markmiðið að ná til iðkenda sem ekki hafa fundið sig í fimleikum. Hefur það gengið eftir. Iðkendur sem oftar en ekki hefðu hætt íþróttaiðkun, hafa ákveðið að prófa sýningardansinn, fundið sig þar og haldið áfram íþróttaiðkun.