Golfklúbburinn Keilir 50 ára
Golfklúbburinn Keilir hélt veglega afmælisveislu laugardaginn 6. maí, en félagið varð 50 ára 25. apríl sl. Golfvöllurinn á Hvaleyrinni var tekinn í notkun sumarið 1967 og hefur aðstaða til golfiðkunar og félagsstarfa verið bætt jafnt og þétt á hverju ári og er afar glæsileg í dag. Í dag eru skráðir iðkendur hjá Golfklúbbnum Keili 1325. Formaður Keilis er Arnar Borgar Atlason. Fjölmenni mætti til veislunnar og færði félaginu gjafir og góðar kveðjur. Formaður ÍBH Hrafnkell Marinósson færði Keili áritaðann glergrip og peningagjöf frá Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar. Í tilefni afmælisins hefur Keilir tekin saman sögu félagsins fyrir fyrstu 10 árin. Fjallað er um aðdragandann, stofnunina og starfsemina 1967-1977. Höfundur er Jóhann Guðni Reynisson um myndasöfnun sá Magnús Hjörleifsson og Gunnar Þór Halldórsson sá um umbrot og hannaði útlit. Bókin er eingöngu gefin út á rafrænu formi og má nálgast hana á vef Keilis. Golfklúbburinn Keilir sótti um nafnbótina Fyrirmyndarfélag ÍSÍ til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Viðar Sigurjónsson verkefnisstjóri Fyrirmyndarfélags ÍSÍ afhenti Arnari Borgari formanni Keilis viðurkenninguna formlega í afmælinu. Myndirnar sýna Arnar Borgar formann Keilis, afhendingu fána sem fylgir Fyrirmyndarfélags ÍSÍ nafnbótinni og gesti.