Vígsla frjálsíþróttahúss í Kaplakrika

Sunnudaginn 18. maí sl var nýtt frjálsíþróttahús vígt hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar í Kaplakrika við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni. Formaður bygginganefndar Gunnar Svavarsson stýrði athöfninni. Erlendur Árni verkefnisstjóri rakti sögu byggingarinnar og að því loknu tók við hefðbundin dagskrá með ávörpum stjórnmálamanna og forystumanna úr íþróttahreyfingunni, afhending hússins, blessun hússins, vígslu hringur genginn eða hlaupin og stutt frjálsíþróttamót fyrir yngri iðkendur. Árið 2005 hófst undirbúningur við húsið í framhaldi af undirritun viljayfirlýsingar á 75 ára afmæli FH 16. október 2004 milli FH og Hafnarfjarðarbæjar. Í maí 2007 hófust framkvæmdir við húsið, en stöðvuðust þremur árum seinna vegna gjaldþrots verktakans. Húsinu var síðan lokað, m.a. til að forða því frá skemmdum. Í febrúar 2014 hófst síðan næstsíðasti áfanginn við húsið og er það tilbúið til notkunar, en loftræsti- og hitakerfi verður sett upp í húsinu á næstu vikum. Síðasti áfanginn hefur verið samþykktur frá og með komandi hausti sem flýtiframkvæmd, en í honum er m.a. að klæða húsið að utan, lóðarframkvæmdir, ásamt lokum annarra verkefna í Íþróttamiðstöðinni Kaplakrika sem hafa beðið lengi eftir verklokum. Húsið er 4596m2 að stærð, með 200m hringbraut, aðstöðu fyrir allar stökk- og kastgreinar og 226m langri mjúkri upphitunarbraut fyrir utan hringbrautina. Fulltrúar alþjóðlegra frjálsíþróttasamtaka hafa skoðað húsið og er stefnt að því að fá það samþykkt sem löglegt alþjóðlegt keppnismannvirki. Rík hefð er fyrir frjálsum íþróttum í Hafnarfirði og hafa þær verið stundaðar innan FH frá árinu 1934 með hléum. Frjálsíþróttafólk FH hefur í gegnum áratugina verið áberandi og unnið glæsileg afrek bæði innan- og utanlands. Hafnfirðingar hafa haft orð á því að Hörðuvellirnir séu loksins komnir undir þak í Hafnarfirði!