Rio Tinto Alcan á Íslandi og Hafnarfjarðarbær afhenda styrki fyrir 16 ára og yngri iðkendur aðildarfélaga ÍBH

Rio Tinto Alcan á Íslandi hf og Hafnarfjarðarbær afhentu fulltrúum hafnfirskra íþróttafélaga styrki fyrir 16 ára og yngri iðkendur félaganna við athöfn í Straumsvík mánudaginn 2. júní sl. Samtals var úthlutað 10,8 milljónum króna sem samkvæmt ákvæðum samnings skiptast á þau 11 íþróttafélög sem sóttu um stuðning fyrir barna- og unglingastarfið í sínu félagi. Eftirtalin íþróttafélög hlutu styrk: Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) samtals kr. 3.017.090, Fimleikafélagið Björk samtals kr. 2.560.386, Knattspyrnufélagið Haukar samtals kr. 2.276.424, Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) samtals kr. 1.043.558, Hestamannafélagið Sörli samtals kr. 425.942, Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH) samtals kr. 425.942, Golfklúbburinn Keilir samtals kr. 414.110,  Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar (DÍH) samtals kr. 373.883, Siglingaklúbburinn Þytur samtals kr. 132.515, Íþróttafélagið Fjörður samtals kr. 68.624 og Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar samtals kr. 61.525.

Myndin að ofan sýnir forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi Rannveigu Rist og bæjarstjórann í Hafnarfirði Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur ásamt fulltrúum íþróttafélaganna.       

 

Frá árinu 2001 hefur verið í gildi samningur milli Rio Tinto Alcan, ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar um stuðning við íþróttastarf 16 ára og yngri iðkenda aðildarfélaga ÍBH.

Í upphafi var framlagið 8 milljónir á ári og greiddi hvor aðili 4 milljónir á ári.

Í byrjun árs 2005 hækkaði framlagið í 10 milljónir á ári og var framlag hvors aðila 5 milljónir á ári. Styrktarupphæð ársins 2008 var síðan orðin 12 milljónir á ári, með 6 milljón króna framlagi frá hvorum aðila á ári. Frá 2011 var heildarupphæðin orðin 15 milljónir á ári. Rio Tinto Alcan hækkaði framlag sitt í 9 milljónir, auk þess að greiða kr. 100 á hvern iðkanda til auglýsingamerkinga á fatnaði o.m.fl. Hafnarfjarðarbær hélt framlagi sínu óbreyttu í 6 milljónum á ári. Samningurinn var endurskoðaður í árslok 2013 og frá 2014 var heildarupphæðin orðin 18 milljónir á ári. Hafnarfjarðarbær hækkaði framlag sitt í 9 milljónir og Rio Tinto Alcan hélt framlagi sínu óbreyttu í 9 milljónum á ári.

Heildarupphæð styrksins er skipt í tvær úthlutanir yfir árið. Í vorúthlutun er 60% upphæðarinnar skipt á félögin út frá iðkendafjölda þeirra 16 ára og yngri. Í ár gáfu félögin upp bæði fjölda og kyn iðkenda. Seinni úthlutun fer fram í desember og er þá verið að greiða 40% af upphæðinni til félaganna út frá námskrám og menntunarstigi þjálfara.

 Samfélagið gerir sífellt meiri kröfur á íþróttafélögin og ber þau gjarnan saman við þjónustu grunnskólans þegar verið er að þjónusta börn 16 ára og yngri. Það leiðir til endurmats á innra starfi félaganna og breytingum á þjónustustigi þar sem við á. Fjárstuðningur í formi íþróttastyrkja gerir íþróttafélögum m.a. kleift að auka gæði starfsins og lækka kostnað fyrir iðkendur og fjölskyldur þeirra.         

Barna- og unglingastarf aðildarfélaga ÍBH er í sífelldri þróun og endurskoðun. Samfélagið gerir kröfur um vellíðan allra sem koma að íþróttastarfi félaganna. Í dag þurfa þjálfarar að sinna uppeldis-, forvarnar- og íþróttastarfi. Starfið er oft á tíðum bæði flókið og erfitt. Félögunum reynist einnig erfitt að finna hæft fólk sem býr yfir þekkingu á íþróttum en þarf í leiðinni að hafa marga góða mannlega eiginleika svo starfið takist vel og ánægja sé með starfið. Íþróttafélögin móta þá einstaklinga sem taka þátt í starfinu fyrir lífstíð. Þjálfarar félaganna leggja m.a. grunninn að heilbrigðum lífsstíl iðkenda og byggja starfið á heilbrigðum gildum í samfélaginu. Skipulagt íþróttastarf skilar verðmætari einstaklingum út í samfélagið sbr. niðurstöður Rannsóknar og greiningar undanfarin 20 ár. Starf íþróttafélaganna er mjög verðmætt fyrir allt samfélagið. En fjölbreytt og öflugt starf getur ekki farið fram án stuðnings bæði opinberra aðila og einkaaðila. Samvinna Hafnarfjarðarbæjar og Rio Tinto Alcan á Íslandi um fjárstuðning við barna- og unglingastarf hafnfirskra íþróttafélaga er gífurlega mikilvægt fyrir allt samfélagið og fjárhagslega ómetanlegt. Íþróttahreyfingin í Hafnarfirði þakkar Rio Tinto Alcan á Íslandi hf og Hafnarfjarðarbæ fyrir ómetanlegan stuðning og farsælt samstarf í gegnum árin.