Arna Stefanía og Róbert Ísak íþróttafólk Hafnarfjarðar 2017
Á íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar sem fór fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu miðvikudaginn 27. desember sl. voru Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði og Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar kjörin íþróttafólk Hafnarfjarðar 2017. Myndin sýnir Róbert Ísak, Örnu Stefaníu og Karólínu Helgu Símonardóttur formann íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðarbæjar.
Arna Stefanía varð Íslandsmeistari á árinu og bikarmeistari með kvennaliði FH. Hún er landsliðskona í frjálsíþróttum og tók þátt í alþjóðlegum mótum með góðum árangri. Arna Stefanía sigraði á Smáþjóðaleikunum 2017 í 400m grindahlaupi í kvennaflokki. Hún er Norðurlandameistari kvenna í 400m hlaupi innanhúss og vann brosverðlaun á Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri í 400m grindahlaupi. Arna Stefanía er frjálsíþróttakona FH 2017.
Róbert Ísak er margfaldur Íslandsmeistari í sundi á árinu. Bikarmeistari í sundi með bæði Firði og Sundfélagi Hafnarfjarðar. Róbert tók þátt í alþjóðlegum mótum og vann til verðlauna á þeim. Hann er fjórfaldur Norðurlandameistari í sundi á árinu. Heimsmeistari í 200m fjórsundi, silfurverðlaunahafi á heimsmeistaramóti í 100m bringusundi og í 100m baksundi. Róbert er íþróttakarl Fjarðar 2017.