ÍSÍ bikarinn 2017

Frjálsíþróttadeild FH hlýtur ÍSÍ bikarinn 2017. Bikarinn er afhendur því félagi eða íþróttadeild sem skarar framúr í félagslegri uppbyggingu og íþróttalegum árangri. Með nýju innanhúss mannvirki í Kaplakrika hefur iðkendum í öllum aldurshópum beggja kynja fjölgað jafnt og þétt. Íþróttadeildin á flesta Íslandsmeistaratitla í Hafnarfirði 2017 og koma þeir úr öllum aldurshópum beggja kynja. Meistaraflokkur karla er Íslandsmeistari félagsliða í frjálsíþróttum utanhúss og meistaraflokkur kvenna er bikarmeistari í frjálsíþróttum utanhúss. Deildin átti átta landsliðsmenn á Smáþjóðaleikum og í Evrópubikar landsliða á árinu. Hilmar Örn, Arna Stefanía og Vigdís tóku þátt í Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri og vann Arna Stefanía til bronsverðlauna í 400m grindahlaupi á því móti. Hilmar Örn tók þátt á heimsmeistaramóti í sleggjukasti karla og náði góðum árangri. Arna Stefanía vann gullverðlaun á Norðurlandamóti í 400m hlaupi kvenna innanhúss. Jón Ólafsson vann gullverðlaun á Norðurlandamóti í stangarstökki öldunga. Deildin hefur farið reglulega með alla aldurshópa í æfinga- og keppnisferðir erlendis og verið öflug í mótahaldi í frjálsíþróttum á Íslandi. Myndin sýnir Sigríði Jónsdóttur varaforseta ÍSÍ afhenda Sigurði Haraldssyni formanni frjálsíþróttadeildar FH bikarinn á íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar miðvikudaginn 27. desember sl.