Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar 2017
Fór fram miðvikudaginn 27. desember sl. í Íþróttahúsinu við Strandgötu að viðstöddu fjölmenni. Alls voru 429 Íslandsmeistarar heiðraðir. Frjálsíþróttadeild FH átti 114 Íslandsmeistara, sunddeild SH átti 65 Íslandsmeistara og handknattleiksdeild Hauka átti 45 Íslandsmeistara, önnur félög og deildir áttu færri Íslandsmeistara 2017. Þrír hópar urðu Íslandsmeistarar félagsliða í efsta flokki, Skotíþróttafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar í sveitakeppni í norrænu trappi í karlaflokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar í skylmingum liðakeppni blönduð sveit og Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar félagsliða í frjálsíþróttum í karlaflokki utanhúss. Fimmtán hópar urðu bikarmeistarar, þar af fimm í efsta flokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Íþróttafélagið Fjörður bikarmeistarar Íþróttasambands fatlaðra í sundi, Fimleikafélagið Björk bikarmeistarar í frjálsum æfingum kvenna í fimleikum, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í 1. deild karlasveit og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í 1. deild kvennasveit. Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands- eða bikarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 300.000 á titil. Átta einstaklingar urðu Norðurlandameistarar og einn af þeim varð einnig heimsmeistari í sundi fatlaðra. Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona FH varð Norðurlandameistari í 400m hlaupi kvenna innanhúss og vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri í 400m grindahlaupi. Jón Ólafsson frjálsíþróttamaður FH varð Norðurlandameistari í stangarstökki í öldungaflokki. Hjörtur Már Ingvarsson sundmaður Firði varð Norðurlandameistari í 400m skriðsundi fatlaðra, í boðsundi 4x100m skriðsundi blönduð sveit, í boðsundi 4x50m skriðsundi karla, í boðsundi 4x50m fjórsundi karla og setti heimsmet í 1500m skriðsundi í fötlunarflokki S6. Róbert Ísak Jónsson sundmaður Firði varð Norðurlandameistari í 100m flugsundi, 200m fjórsundi í ungmennaflokki fatlaðra, í boðsundi 4x50m skriðsund karla, í boðsundi 4x50m fjórsundi karla, heimsmeistari fatlaðra í 200m fjórsundi, silfurverðlaun á heimsmeistaramóti fatlaðra í 100m bringusundi og silfurverðlaun á heimsmeistaramóti fatlaðra í 100m baksundi. Tanya Jóhannsdóttir sundkona Firði varð Norðurlandameistari í 100m baksundi í ungmennaflokki fatlaðra og í boðsundi 4x100m skriðsundi blönduð sveit. Guðfinnur Karlsson sundmaður Firði varð Norðurlandameistari í boðsundi 4x100m skriðsundi blönduð sveit, í boðsundi 4x50m skriðsundi karla og í boðsundi 4x50m fjórsundi karla. Aníta Ósk Hrafnsdóttir sundkona Firði varð Norðurlandameistari í boðsundi 4x100m skriðsundi blönduð sveit. Þórdís Ylfa Viðarsdóttir skylmingarkona FH varð Norðurlandameistari kvenna í skylmingum. Tuttugu og tveir afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á Íþróttakarli Hafnarfjarðar og Íþróttakonu Hafnarfjarðar, Ágúst Birgisson handknattleikur FH, Steven Lennon knattspyrna FH, Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttir FH, Axel Bóasson kylfingur Keili, Róbert Ísak Jónsson sundmaður Firði, Róbert Ingi Huldarsson badmintonmaður BH, Arnór Már Grímsson hnefaleikamaður HFH, Aron Örn Stefánsson sundmaður SH, Nicoló Barbizi dansari DÍH, Ragnar Skúlason akstursíþróttamaður AÍH, Daníel Þór Ingason handknattleiksmaður Haukum, Guðný Árnadóttir knattspyrnukona FH, Alexandra Jóhannsdóttir knattspyrnukona Haukum, Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona FH, Þóra Jónsdóttir körfuknattleikskona Haukum, Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur Keili, Tanya Jóhannsdóttir sundkona Firði, Erla Björg Hafsteinsdóttir badmintonkona BH, Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona SH, Hjördís Ýr Ólafsdóttir þríþrautarkona SH, Sara Rós Jakobsdóttir dansari DÍH og Elín Jóna Þorsteinsdóttir handknattleikskona Haukum. Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Firði var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2017 og Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona FH var kjörin Íþróttakona Hafnarfjarðar 2017.