Nýr körfuknattleikssalur vígður á Ásvöllum
Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri Hauka setti athöfn í tilefni opnunarinnar og stýrði henni. Á 87 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Hauka 12. apríl sl. var vígður glæsilegur íþróttasalur með löglegum körfuknattleiksvelli og nefndur Ólafssalur eftir Ólafi heitnum Rafnssyni fyrrum forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og körfuknattleiksmanni úr Haukum. Salurinn verður einnig notaður fyrir skólaíþróttir grunnskólanna og mun leysa úr brýnni þörf á íþróttaaðstöðu fyrir Hauka. Salurinn er fullbúinn að innan fyrir utan að skipta þarf út aðalkörfum vallarins sem standast ekki keppnisstaðla. Einnig á eftir að koma upp áhorfendapöllum, en í salum eru svalir sem ná allan hringinn. Húsið er ekki að fullu tilbúið að utan. Fulltrúar S.Þ. verktaka afhentu Hafnarfjarðarbæ húsið sem afhenti Samúel Guðmundssyni formanni Hauka það á táknrænanhátt með lykli. Helga Ingólfsdóttir formaður byggingarnefndar húsins flutti ávarp fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. Gerður Guðjónsdóttir ekkja Ólafs Rafnssonar flutti ávarp og afhenti Knattspyrnufélaginu Haukum eina milljón króna til hugarþjálfunar úr minningarsjóði Ólafs Rafnssonar. Sr. Kjartan Jónsson sóknarprestur í Ástjarnarkirkju blessaði salinn. Hafnarfjarðarbær skrifaði undir nýjan rekstrarsamning við Knattspyrnufélagið Hauka þar sem gert er ráð fyrir rekstri nýs salar að Ásvöllum. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH flutti stutt ávarp í tilefni vígslunnar. En það gerðu einnig Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ og Hannes Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Fjölmenni var við vígsluna, fulltrúar hönnuða, verktaka, íþróttasamtaka, stjórnmálamenn, Haukamenn og gestir. Myndirnar með fréttinni voru teknar við vígsluna.