Fulltrúaráðsfundur ÍBH haldinn 5. maí sl.

Laugardaginn 5. maí sl. hélt Íþróttabandalagið í Hafnarfirði fulltrúaráðsfund í Apótekinu í Hafnarborg. Fundurinn hófst kl. 9.00 og lauk um hálf tvö. Fulltrúar frá 16 félögum af 19 mættu til fundarins. Dagskrá fundarins var eftirfarandi, formaður ÍBH Hrafnkell Marinósson setti fundinn og var fundarstjóri á fundinum. Magnús Gunnarsson og Þórunn Ansnes mynda nefnd innan stjórnar ÍBH um viðbragðsteymi innan íþróttafélaga. Fluttu þau erindi um viðbragðsteymi og tóku dæmi úr þeim félögum sem þau starfa fyrir. Hvöttu þau aðildarfélög ÍBH til þess að stofna viðbragsteymi og nota viðbragðsáætlun ÍSÍ eða búa til viðbragðsáætlun fyrir félagið þar sem viðbragðsáætlun ÍSÍ er notuð til hliðsjónar. Geir Bjarnason íþróttafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar mætti til fundarins og kynnti óháð fagráð í Hafnarfirði vegna ofbeldismála. Hægt verður að senda til ráðsins erindi vegna ágreinings- og álitamála frá íþrótta- og tómstundafélögum í Hafnarfirði varðandi mál sem tengjast ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, siðferðislegum álitamálum og eineltismálum. Ráðið veitir félagasamtökum ráð og stuðning varðandi vinnu við slík mál. Fulltrúar aðildarfélaga ÍBH fóru yfir stöðuna í sínu félagi. Kári Jónsson íþróttafulltrúi í Garðabæ flutti áhugavert erindi um íþróttamál í sveitarfélögum, fundarmenn höfðu margar spurningar til Kára. Nefnd innan stjórnar ÍBH um kynningarmál fór yfir íþróttakynningar á Björtum dögum í Hafnarfirði. Nefndina skipa Hrafnkell Marinósson, Ragnar Hilmarsson og Jóhann Óskar Borgþórsson. Hrafnkell og Jóhann sáu um kynninguna og samtalið við fundarmenn. Nefndin bar það ennfremur undir fundinn hvort halda ætti sérstakan kynningardag íþrótta næsta haust. Íþróttabandalagið í Hafnarfirði þakkar Hafnarfjarðarbæ kærlega fyrir afnot af glæsilegum sal, Apótekinu í Hafnarborg. Jafnframt vill ÍBH þakka veitingahúsinu KRYDD í Hafnarborg fyrir glæsilegar veitingar á fundinum. Myndirnar eru frá fundinum.