Úthlutun íþróttastyrkja fyrir yngri en 18 ára iðkendur aðildarfélaga ÍBH
Fimmtudaginn 31. maí fór fram úthlutun íþróttastyrkja fyrir yngri en 18 ára iðkendur aðildarfélaga ÍBH samkvæmt samningi milli ÍBH, Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar. Úthlutunin fór fram í höfuðstöðvum Rio Tinto á Íslandi í Straumsvík. Samningur hefur verið í gildi frá árinu 2001 á milli Íþróttabandalagsins í Hafnarfirði, Rio Tinto og Hafnarfjaðarbæjar. Samningar hafa verið gerðir til þriggja ára í senn og er nýjasti samningurinn frá árinu 2017 og lýkur honum í árslok 2019. Rio Tinto og Hafnarfjarðarbær greiða 10 milljónir á ári hvor aðili inn í samstarfið til stuðnings íþróttum barna og unglinga í Hafnarfirði. Í dag er verið að úthluta fyrri úthlutun ársins úr sjóðnum eða 60% vegna iðkendafjölda sem æfir reglulega í félögunum og jafnréttishvata, samtals 12 milljónir. Óskað var eftir umsóknum frá aðildarfélögum ÍBH í aprílmánuði og sóttu 12 félög um stuðning úr sjóðnum. Eftirtalin félög fengu stuðning út frá samningi og umsóknum:
Fimleikafélag Hafnarfjarðar kr. 3.188.653.
Fimleikafélagið Björk kr. 2.206.070.
Knattspyrnufélagið Haukar kr. 1.879.807.
Sundfélag Hafnarfjarðar kr. 999.655.
Brettafélag Hafnarfjarðar kr. 838.420.
Badmintonfélag Hafnarfjarðar kr. 517.848.
Golfklúbburinn Keilir kr. 356.613.
Hestamannafélagið Sörli kr. 349.026.
Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar kr. 320.573.
Siglingaklúbburinn Þytur kr. 216.244.
Íþróttafélagið Fjörður kr. 83.463.
Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar kr. 43.628.
Samtals kr. 11.000.000.
Jafnréttishvataverðlaun 2018 hlutu Brettafélag Hafnarfjarðar kr. 500.000 og Badmintonfélag Hafnarfjarðar kr. 500.000. Samtals kr. 1.000.000.
Skipulagt íþróttastarf með börn og unglinga á Íslandi hefur náð eftirtektarverðum forvarnarárangri eins og rannsóknarniðurstöður frá Rannsóknum og greiningu hafa sýnt fram á frá árinu 1992. Í þessu samhengi má einnig benda á grein sem birtist á mbl.is 28. maí sl. Erum að upplifa „gullöld íslenskra Íþrótta.“ Þar sem Viðar Halldórsson dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands heldur því fram að við sérum að upplifa gullöld íslenskra íþrótta. Að sögn Viðars erum við að ná í íþróttafélögum markmiðum sem snúast um keppni og afrek og einnig um félagsfærni og uppeldi. Skiplag erlendis er ekki að virka nema að litlu leyti til þess að ná afreksunglingum upp í afrekslið. Önnur lönd eru farin að líta til Íslands og okkar skipulags. Myndirnar eru af fulltrúum aðildarfélaga ÍBH við afhendingu styrkjanna, ásamt forstjóra Rio Tinto á Íslandi Rannveigu Rist, formanni Íþróttabandalags Hafnarfjarðar Hrafnkeli Marinóssyni og Geir Bjarnasyni íþróttafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.