Fulltrúaráðsfundur ÍBH
Fulltrúaráðsfundur Íþróttabandalags Hafnarfjarðar var haldinn laugardaginn 24. nóvember sl. í félagsheimili Siglingaklúbbsins Þyts við höfnina í Hafnarfirði. Formaður ÍBH Hrafnkell Marinósson setti fundinn og fór yfir dagskrá hans. Framkvæmdastjóri ÍBH fór yfir ráðstefnu sem formaður og framkvæmdastjóri ÍBH tóku þátt í föstudaginn 16. nóvember sl. um framtíðarskipulag íþróttamála, boðið var til ráðstefnunnar stjórnum og starfsfólki ÍSÍ og UMFÍ, fulltrúum íþróttahéraða, fulltrúum sérsambanda ÍSÍ, Íþróttanefnd ríkisins, fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fulltrúum sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúum félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa. Ráðstefnan var blanda af þjóðfundi og borgarafundi, þátttakendur reyndu að svara fjórum spurningum. Samantekt af ráðstefnunni verður kynnt á Íþróttaþingi ÍSÍ 3. – 4. maí 2019. Formaður ÍBH kynnti það helsta sem fór fram á formannafundi ÍSÍ 16. nóvember sl., var þetta annar formannafundur ÍSÍ þar sem bæði formenn og framkvæmdastjórar eru boðaðir á fundinn. Nefnd á vegum stjórnar ÍBH sem ber heitið fjármögnun íþróttafélaga, kynnti erindi fyrir fundarmönnum sem bar heitið Fjármögnun íþróttafélaga – Hvernig er staðan í dag? – Hvert viljum við fara? Nefndina skipa Ingvar Kristinsson sem er formaður, Magnús Gunnarsson, Viðar Halldórsson og Ragnar Hilmarsson. Fundurinn samþykkti að nefndin skyldi óska eftir fundi með bæjarráði Hafnarfjarðarbæjar og kynna erindið fyrir bæjarráði Hafnarfjarðarbæjar. Gunnar Geir Halldórsson formaður Siglingaklúbbsins Þyts sýndi fundarmönnum aðstöðu félagsins. Fundurinn endaði með sameiginlegum hádegisverði. 27 fulltrúar úr íþróttahreyfingunni í Hafnarfirði mættu til fundarins. Myndirnar sem fylgja fréttinni voru teknar á fundinum.