Sara Rós og Axel íþróttafólk Hafnarfjarðar 2018

 

Fimmtudaginn 27. desember 2018 fór fram hin árlega Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Axel Bóasson kylfingur úr Golfklúbbnum Keili var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar og Sara Rós Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar var kjörin Íþróttakona Hafnarfjarðar.

474 Íslandsmeistarar voru heiðraðir af bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Frjálsíþróttadeild FH átti 113 Íslandsmeistara, sunddeild SH átti 105 Íslandsmeistara og knattspyrnudeild FH átti 54 Íslandsmeistara, önnur félög og deildir áttu færri Íslandsmeistara 2018.

Sex hópar urðu Íslandsmeistarar félagsliða í efsta flokki,

Skotíþróttafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar í sveitakeppni í norrænu trappi í karlaflokki, Siglingaklúbburinn Þytur Íslandsmeistarar kjölbáta í karlaflokki, Golfklúbburinn Keilir Íslandsmeistarar í sveitakeppni í karlaflokki, Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar félagsliða í frjálsíþróttum í kvennaflokki innanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistarar félagsliða í frjálsíþróttum samanlagt karla- og kvennaflokkur innanhúss og Knattspyrnufélagið Haukar Íslandsmeistarar í körfuknattleik í kvennaflokki.

 

Tólf hópar urðu bikarmeistarar, þar af sjö í efsta flokki, Golfklúbburinn Keilir stigameistari kvennaliða hjá Golfsambandi Íslands, Golfklúbburinn Keilir stigameistari karlaliða hjá Golfsambandi Íslands, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í kvennaflokki utanhúss, Fimleikafélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í frjálsíþróttum í karlaflokki innanhúss, Íþróttafélagið Fjörður bikarmeistarar Íþróttasambands fatlaðra í sundi, Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í 1. deild karlasveit og Sundfélag Hafnarfjarðar bikarmeistarar í 1. deild kvennasveit.

Hafnarfjarðarbær veitir hópum sem verða Íslands- eða bikarmeistarar í efsta flokki viðurkenningarstyrk að upphæð kr. 300.000 á titil.

 

Níu einstaklingar urðu Norðurlandameistarar eða unnu gull- og silfurverðlaun á Evrópumeistaramótum.

Axel Bóasson kylfingur Golfklúbbnum Keili varð Evrópumeistari í blönduðum liðum á Evrópumóti atvinnukylfinga og vann til silfurverðlauna í liðakeppni karla á Evrópumóti atvinnukylfinga. Róbert Ísak Jónsson vann tvö silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi og fjögur gullverðlaun á Norðurlandameistaramóti fatlaðra í sundi. Einar Örn Sindrason og Sigurður Dan Óskarsson handknattleiksmenn úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar unnu silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti U-18 í handknattleik. Gunnar Egill Ágústsson skylmingamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun á Norðurlandamóti í liðakeppni í skylmingum. Leo Anthony Speight taekwondomaður úr Fimleikafélaginu Björk vann gullverðlaun á Norðurlandamóti í bardaga í flokki Junior – 68 kg. Baldur Logi Guðlaugsson og Jóhann Þór Arnarsson knattspyrnumenn úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar unnu gullverðlaun á Norðurlandamóti U17 í knattspyrnu. Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar vann gullverðlaun á Norðurlandamóti í 400m hlaupi kvenna innanhúss.

 

Tuttugu afreksmenn voru tilnefndir til kjörs á Íþróttakarli Hafnarfjarðar og Íþróttakonu Hafnarfjarðar.

Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, Axel Bóasson kylfingur úr Golfklúbbnum Keili, Gunnar Egill Ágústsson skylmingarmaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Kári Jónsson körfuknattleiksmaður úr Knattspyrnufélaginu Haukum, Kristinn Torfason frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Leo Anthony Speight taekwondomaður úr Fimleikafélaginu Björk, Magnús Gauti Úlfarsson borðtennismaður úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Nicoló Barbizi dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Róbert Ingi Huldarsson badmintonmaður úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Róbert Ísak Jónsson sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði og Sundfélagi Hafnarfjarðar. Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, Erla Björg Hafsteinsdóttir badmintonkona úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Gabríela Einarsdóttir klifurkona úr Fimleikafélaginu Björk, Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur Golfklúbbnum Keili, Hjördís Helga Ægisdóttir karatekona úr Knattspyrnufélaginu Haukum, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, Margrét Lea Kristinsdóttir fimleikakona úr Fimleikafélaginu Björk, Sara Rós Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, Tanya Jóhannsdóttir sundkona úr Íþróttafélaginu Firði og Þóra Kristín Jónsdóttir körfuknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum.

 

Axel Bósasson kylfingur úr Golfklúbbnum Keili var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2018

Axel er einn af bestu kylfingum landsins og er á þriðja ári sem atvinnumaður. Hann er Íslandsmeistari og stigameistari karla á árinu. Hann sigraði á Evrópumóti atvinnumanna í blönduðum liðum ásamt Birgi Leif, Valdísi og Ólafíu á Gleneagles í Skotlandi. Axel varð einnig í öðru sæti liða í tvímenningi á Evrópukeppni atvinnumanna ásamt Birgi Leif.

Sara Rós Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar var kjörin Íþróttakona Hafnarfjarðar 2018

Sara Rós er margfaldur Íslands- og bikarmeistari í standard, latin og 10 dönsum á árinu. Hún keppir fyrir landslið Dansíþróttasambands Íslands ásamt dansfélaga sínum og tóku þau þátt í fjölda alþjóðlegra móta víðsvegar um heiminn með góðum árangri. Í ár er 6. sætið í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins í 10 dönsum besta afrek þeirra.

 

 

ÍSÍ bikarinn 2018

Knattspyrnufélagið Haukar hlýtur ÍSÍ bikarinn 2018. Bikarinn er afhendur því félagi eða íþróttadeild sem skarar framúr í félagslegri uppbyggingu, leggur áherslu á að hafa sem flesta menntaða þjálfara, kennir eftir námskrám og nær góðum íþróttalegum árangri. 12. apríl sl. var vígður nýr kennslu- og körfuknattleikssalur í Íþróttamiðstöð Hauka að Ásvöllum. Félagið er með fjögur lið í efstu deild í meistaraflokkum kvenna og karla í handknattleik og körfuknattleik og varð meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik Íslandsmeistarar á árinu. Drengjaflokkur í körfuknattleik urðu einnig Íslandsmeistarar. Meistaraflokkar karla og kvenna í handknattleik léku til undanúrslita í Íslandsmóti og mfl. kvenna lék til úrslita í bikarkeppni HSÍ. 5. flokkur kvenna urðu Íslandsmeistarar. Knattspyrnudeild félagsins er fjölmennust og er starf yngri flokkanna í miklum blóma og hefur á að skipa mikið af efnilegu íþróttafólki. Meistaraflokkar kvenna og karla spila í Inkasso deild og hefur árangur þeirra verið vel viðunandi. Karatedeildin á eina unga og efnilega afrekskonu. Allt að eitthundrað einstaklingar sem stunda hinar margvíslegu íþróttagreinar hjá Haukum hafa á árinu tekið þátt í landsliðsverkefnum sérsambanda ÍSÍ. 80 manns úr almenningsíþróttadeild félagsins ferðaðist til Muenchen á árinu og tók þátt í götuhlaupi. Um 70 iðkendur, karlar og konur 18 ára og eldri hafa verið virkir í blakdeild félagsins. Að jafnaði eru 40-60 virkir í gönguhóp eldri Haukamanna ásamt því að taka þátt í öflugu félagsstarfi. Félagið starfrækir afreksskóla fyrir nemendur í 8. – 10. bekk, nemendur í framhaldsskóla og aðra metnaðarfulla íþróttamenn. Samúel Guðmundsson formaður Hauka tók við bikarnum af Sigríði Jónsdóttur varaformanni ÍSÍ.

 

 

Afrekslið Hafnarfjarðar 2018

Karla- og kvennalið frjálsíþróttadeildar Fimleikafélags Hafnarfjarðar er afrekslið Hafnarfjarðar 2018.

Liðið varð:

Íslandsmeistari félagsliða í frjálsíþróttum samanlagt karla- og kvennalið innanhúss.

Íslandsmeistari félagsliða í frjálsíþróttum kvennaliðið innanhúss.

Bikarmeistari félagsliða í frjálsíþróttum karlaliðið innanhúss.

Bikarmeistari félagsliða í frjálsíþróttum kvennaliðið utanhúss.

Liðið átti stóran hóp í öllum landsliðskeppnum í karla- og kvennaflokki á árinu. Kristinn Torfason einn af burðarásum liðsins til margra ára tók við bikarnum.