Hafnarfjarðarbær og ÍBH undirrita samninga

Þriðjudaginn 15. janúar sl. voru tveir samningar milli Hafnarfjarðarbæjar og Íþróttabandalags Hafnarfjarðar undirritaðir. ÍBH er regnhlífasamtök allra íþróttafélaga í Hafnarfirði með milli 15-16 þúsund iðkendur og er því stærsta fjöldahreyfing í Hafnarfirði og öflugur vettvangur fyrir íþróttaiðkun, uppeldi og heilsueflingu.

Þjónustusamningur

Annarsvegar er hér um að ræða þjónustusamning þar sem er tryggt að ÍBH fái áfram stuðning til að reka skrifstofu sína og sinna þeim verkefnum sem tíunduð eru í samningnum en þau eru m.a. yfirumsjón með stjórn íþróttamála, að tryggja að íþróttafélög haldi rétt bókhald, halda utanum tölfræði, veita íþróttafélögum ráðgjöf og stuðning, reka m.a. afreksmannasjóð, vera samstarfsvettvangur allra félaganna, taka þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum með Hafnarfjarðarbæ og fylgjast með gæðaviðmiðum varðandi starfsemi íþróttafélaga. Hér má lesa samninginn.

Samstarfssamningur

Hinsvegar er um að ræða samstarfssamning. Sá samningur er í raun regnhlífasamningur milli allra íþróttafélaga og Hafnarfjarðarbæjar og stefnumarkandi fyrir öll samskipti og samvinnuverkefni milli þessara aðila. Samningurinn tryggir að samið sé við íþróttafélög um þá þjónustu sem þau veita bæjarbúum út frá fjölda barna sem iðka greinarnar og hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í rekstri og viðhaldi á íþróttamannvirkjum. Samningurinn tryggir að íþróttafélögin í umboði ÍBH fái æfingar- og keppnistíma í íþróttamannvirkjum í sveitarfélaginu. Í samningnum er ákvæði þar sem Hafnarfjarðarbær skuldbindur sig að taka þátt í að byggja upp íþróttamannvirki í takt við þróun og óskir íþróttafélaganna. Samningurinn festir í sessi starf eftirlitsnefndar með fjármálum íþróttafélaga sem skoðar og greinir fjárhag og rekstur íþróttafélaganna. Í gegnum þennan samning er formleg samþykkt um stofnun óháðs fagráðs sérfræðinga í Hafnarfirði sem tekur á ágreinings- og álitamálum frá íþróttafélögum í Hafnarfirði varðandi mál sem tengjast ofbeldi, þar á meðal kynferðislegu ofbeldi og eineltismálum. Hér má lesa samninginn.

Á myndinni eru, Sunna Magnúsdóttir rekstrarstjóri ÍTH, Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir fræðslustjóri, Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍBH, Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.